Ráðstefna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni

Fimmtánda ráðstefna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD), fer nú fram dagana 7.–19. desember í Montreal, Kanada. Á ráðstefnunni vinna aðildarþjóðir samningsins að samþykkt nýrrar stefnu og aðgerðaáætlunar til ársins 2030 með það að meginmarkmiði að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og stuðla að verndun, endurheimt og sjálfbærri nýtingu líffræðilegra auðlinda. 

Íslensk stjórnvöld skipuðu sjö manna sendinefnd sem sækir fundinn og tekur þátt í samningaviðræðum fyrir hönd Íslands, þar með talið tveir fulltrúar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í sendinefndinni eru:

Sigurður A. Þráinsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti – formaður sendinefndar
Sigríður Svana Helgadóttir, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti
Freydís Vigfúsdóttir, matvælaráðuneyti
Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands
Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndarsviðs Náttúrufræðistofnunar Íslands
Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar
Þórdís Björt Sigþórsdóttir, teymisstjóri náttúruverndar, Umhverfisstofnun. 

Stefnan, sem unnið er að því að móta og samþykkja, og sem mun bera heitið „Post 2020 – Global Biodiversity Framework“, er margþátta og á að fjalla bæði um langtímamarkmið og helstu viðfangsefni sem þjóðir heims þurfa að takast á við og þær nauðsynlegu aðgerðir sem þarf að ráðast í til að ná settum markmiðum. Meðal viðfangsefna sem eru til umræðu eru markmið um að viðhalda og fjölga heilbrigðum vistkerfum með sterkan viðnámsþrótt og standa vörð um þjónustu vistkerfa. Til þess þarf að ráðast í aðgerðir eins og verndun svæða, verndun tegunda, endurheimt vistkerfa, tryggja að nýting nytjastofna sé sjálfbær, vinna gegn útbreiðslu framandi ágengra tegunda, móta reglur um skipulag land- og hafsvæða, landbúnað, skógrækt og aðrar nytjar þannig að hugað sé að áhrifum á líffræðilega fjölbreytni, draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga á líffræðilega fjölbreytni, draga úr mengun af ýmsum toga og minnka vistspor framleiðslu og neyslu. Til viðbótar þarf að móta aðgerðir um innleiðingu áherslna í laga- og regluverk og stefnur allra aðildarþjóða, um upplýsingamiðlun og menntun, um réttláta skiptingu erfðaauðlinda, um hlutverk vísinda og þekkingar innfæddra, um hlutverk borga og síðast en ekki síst um fjármögnun og almennt hvernig bæta má getu aðildarþjóða til að framkvæmda nauðsynlegar aðgerðir.

Samhliða umræðum um stefnuna og aðgerðaáætlunina er rætt um hvernig aðildarþjóðirnar munu ná þessu fram, meðal annars með því að þjóðirnar innleiði áherslur og einstakar aðgerðir inn í aðgerðaáætlanir sínar á landsvísu (National biodiversity strategy and action plan). Þá er stefnt að því að skilgreina öflugt vöktunarkerfi (monitoring framework) til að meta árangur innleiðingar. Í því kerfi verða skilgreindir lykilvísar (headline indicators) til að meta árangur einstakra markmiða, sem þjóðunum ber að innleiða og gefa reglulegar skýrslur um til samningsins, til viðbótar við fjölmarga aukavísa (complementary indicators) sem einnig geta nýst þjóðunum. Sumir vísarnir eru nú þegar í notkun en aðrir eru nýir. 

Eitt meginmarkmið samningaviðræðanna hefur hlotið hvað mesta athygli en það er svokallað „30x30 markmið“ sem snýst um að vernda 30% af landi og 30% af hafi fyrir árið 2030. Ýmis stjórnvöld, meðal annars á Íslandi, styðja það markmið en óvíst er hvort samkomulag náist um það. Stærsta grundvallarmarkmið stefnunnar fjallar um að árið 2050 hafi lykilmarkmiðum verið náð í öllum málaflokkum, að hnignun líffræðilegrar fjölbreytni hafi verið snúið við og að mannkynið lifi í sátt við lífríki jarðar. Það er því að miklu að vinna á ráðstefnunni.

Íslenska sendinefndin hefur lagt áherslu á þátttöku í umræðum og umfjöllun um tiltekin málefni, svo sem málefni hafsins, meðal annars um mikilvæg svæði fyrir líffræðilega fjölbreytni í Norður-Atlantshafi, einnig í umfjöllun um lykilvísa vöktunarkerfisins, umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga og fleira.