Þrívíddarlíkön af gossvæðinu við Grindavík

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur birt tvö þrívíddarlíkön af gossvæðinu við Grindavík og voru líkönin unnin eftir myndum sem teknar voru eftir hádegi í gær, 14. janúar.

Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er starfrækt loftljósmyndastofa þar sem unnið er að jarðfræðikortlagningu með myndmælingatækni, þar sem teknar eru ljósmyndir úr lofti og myndirnar notaðar við gerð þrívíddarlíkana. Aðferðin hefur nýst vel við kortlagningu á gossvæðunum á Reykjanesskaga, allt frá því að fyrsta gosið hófst í Geldingadal í mars 2021. Með þrívíddarlíkönunum má áætla rúmmál og þykkt hrauna, hraunrennsli og margt fleira.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landmælinga Íslands flaug yfir gossvæðið við  Grindavík eftir hádegið í gær þegar gaus úr tveimur sprungum, það er úr sprungu við varnargarðana sem verið var að reisa við bæinn og úr sprungu stutt frá nyrstu húsum byggðarinnar. Unnin hafa verið tvö þrívíddarlíkön eftir myndum sem þá voru teknar, það fyrra eftir myndum sem teknar voru um kl. 14:00 og hið síðara eftir myndum sem teknar voru um kl. 16:20. Líkönin eru vistuð hjá Sketchfab

Verkefnið er unnið í samstarfi við Almannavarnir og Háskóla Íslands.