Út er komin skýrsla um vöktun mosaþembugróðurs í námunda við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun árið 2022 og niðurstöður bornar saman við úttekir árin 2017 og 2012.
Vöktunin hófst að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur árið 2012 eftir að vart varð við skemmdir á mosaþembum í námunda virkjananna. Jarðvarmavirkjanir losa efni út í andrúmsloftið með útblástursgufu og sum þeirra geta haft mengandi áhrif á umhverfið. Gróðurmælingar voru endurteknar árið 2017, þá að beiðni Orku náttúrunnar, og jafnfram bætt við efnagreiningum á mosasýnum. Árið 2022 voru gerðar gróðurmælingar og efnagreiningar.
Niðurstöður vöktunarinnar sýna að mosaþekja er enn að langmestu leyti órofin í vöktunarreitum og að tíðni heilla mosasprota í smáreitum hefur lítið fækkað frá fyrri úttektum, nema í einstaka reitum og þá helst næst Nesjavallavirkjun.
Almennt voru færri skemmdir á mosaþekju árið 2022 samanborið við fyrri ár. Skemmdum efst í mosaþekjunni, svokölluðum B-skemmdum, hefur þó fjölgað á tímabilinu. Þær voru mjög mistíðar og algengari í reitum fjarri virkjunum. Margt bendir til að meginorsök þeirra séu af veðurfarslegum toga.
Svokallaðar D2-skemmdir, sem eru blettir með svörtum skemmdum mosasprotum, hefur fækkað en þær voru algengastar í reitum næst Nesjavallavirkjun. Efnamælingar og fylgniútreikningar sýndu að í sömu reitum var hár styrkur af brennisteini í mosasýnum og er líklegt að skemmdirnar stafi af brennisteinsmengun.
Brennisteinsstyrkur í sýnum við Hellisheiðarvirkjun hefur lækkað mikið frá 2017. Styrkur þungmálma í mosasýnum við báðar virkjanir var í langflestum tilvikum lágur miðað við aðrar mælingar hérlendis. Undantekning á því var að tvö há gildi á kvikasilfri mældust í 4000 m fjarlægð og suðaustur frá Nesjavallavirkjun og fjögur, nokkuð há bórgildi, mældust næst virkjuninni árið 2017.
Skýrslan var unnin í samvinnu við Landgræðsluna.
NÍ-23008 (pdf, 12,3 MB). Járngerður Grétarsdóttir, Ágústa Helgadóttir og Rannveig Thoroddsen. Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun árið 2022. Niðurstöður gróður- og efnamælinga og samanburður við mælingar 2012 og 2017. Unnið fyrir Orku náttúrunnar.