Fyrstu frjókornin væntanleg

Þó enn sé vetur eru fyrstu blóm tegunda af elriættkvísl, Alnus, farin að skjóta upp kollinum og gera má ráð fyrir að frjókorna þeirra fari að verða vart í lofti. Á þessum árstíma er algengt að fólk telji sig hafa kvefeinkenni þegar það er í raun farið að finna fyrir frjókornaofnæmi. Magn elrifrjókorna, og frjókorna annarra tegunda, er mjög mismunandi eftir árstímum og landfræðilegri staðsetningu.

Á Íslandi er ekki að finna innlendar tegundir af elriættkvísl en hér eru ræktaðar átta tegundir sem finnast aðallega sem stök tré í görðum og í grónu þéttbýli (grænölur, rauðölur, dúnölur, gráölur, ryðölur, sitkaölur, blæölur og kjarrölur). Ölur er fyrst allra tegunda að blómgast á vorin, oftast í mars og apríl. Ölur er af sömu ætt og birkið og hefur sömu ofnæmisvaka. Fólk með ofnæmi fyrir birki getur því fundið fyrir einkennum löngu áður en birkið blómgast ef það er í námunda við blómstrandi öl.

Fólk sem þjást af frjókornaofnæmi eru hvattir til að hafa varan á á frjótímabilinu. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

  • Forðast að fara út þar sem er mikið af birki og óslegnu grasi. Gras dreifir helst frjóum sínum snemma morguns (kl. 7–10) og seinnipart dags (kl. 16–19)
  • Ekki þurrka þvott utandyra
  • Sofa við lokaðan glugga
  • Slá grasið áður en það blómgast
  • Skipta um föt og þvo hárið eftir að hafa verið nálægt frjódreifingu
  • Nota sólgleraugu og höfuðföt
  • Bursta og þvo feld heimilisdýra
  • Aka um með lokaða glugga og hafa góða frjókornasíu í loftræstingunni
    Taka lyf samkvæmt læknisráði