Hrafnaþing: Útþensla byggðar, ógn við búsvæði válistategundarinnar blátoppu

Á Hrafnaþingi miðvikudaginn 24. apríl kl. 15:15–16:00, mun Rannveig Thoroddsen plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytja erindið „Útþensla byggðar, ógn við búsvæði válistategundarinnar blátoppu, Sesleria albicans“.

Blátoppa, Sesleria albicans, er grastegund sem er á válista æðplantna sem tegund í nokkurri hættu (VU) og hefur verið friðuð frá því nóvember 2021. Mjög hefur þrengt að búsvæði blátoppu suðvesturhorninu sem er hennar aðalútbreiðslusvæði, vegna útþenslu byggðar jafnframt sem hún á undir högg að sækja vegna aukinnar útbreiðslu ágengra tegunda.

Sumarið 2023 var útbreiðsla blátoppu kortlögð á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangurinn var að uppfæra fyrirliggjandi upplýsingar úr gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands, en flestar skráningarnar sem komnar voru til ára sinna, þannig að þær nýtist aðilum á sviði náttúruverndar og á sviði skipulags og framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu.

Í erindinu verður gert grein fyrir uppfærðu mati á útbreiðslu blátoppu á höfuðborgarsvæðinu, í hvers konar búsvæði finnst hún þar og helstu ógnum sem steðja að búsvæði hennar og þá hvernig mætti stemma stigu við þeim. 

Hrafnaþing verður haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð. Því er jafnframt streymt á Youtube-rás stofnunarinnar.