Alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni 2024

Í dag er alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni. Þema dagsins að þessu sinni er „Vertu hluti af áætluninni.“

Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða tilveru okkar því er framtíð og verndun hennar eitt mikilvægasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Fjölbreytileika lífríkisins hnignar því miður stöðugt og hratt um allan heim. Umsvif mannsins eru þar meginorsökin, þar sem á sér stað yfirtaka búsvæða, mengun, útbreiðsla ágengra tegunda, ofnýting náttúruauðlinda, loftslagsbreytingar, fjölgun mannkyns og aðrar mannlegar athafnir. Að vernda líffræðilega fjölbreytni er því ein megináskorunin tengd sjálfbærri þróun og er þungavigtaratriði í náttúrutengdum lausnum í ýmsum málaflokkum svo sem loftslagsmálum, heilbrigðismálum, matvæla- og vatnsvernd og sjálfbærri lífsafkomu. 

Alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni er haldinn hátíðlegur 22. maí á hverju ári til að fagna og minnast samningsins um líffræðilega fjölbreytni sem undirritaður var á þessum degi árið 1992. Dagurinn er nýttur til að hlúa að víðtækum stuðningi við samninginn, bókanir hans og aðgerðaramma.

Þema dagsins í ár er „Vertu hluti af áætluninni“ en þar er um að ræða ákall til allra hagsmunaaðila um að gripið verði til aðgerða til að styðja innleiðingu aðgerðaáætlunar um líffræðilega fjölbreytni sem samþykkt var á ráðstefnu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (COP-15). Meginmarkmið hennar er að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og stuðla að verndun, endurheimt og sjálfbærri nýtingu líffræðilegra auðlinda. Ríkisstjórnir, frumbyggjar, sveitarfélög, frjáls félagasamtök, löggjafaraðilar, fyrirtæki og einstaklingar hvattir til að varpa ljósi á hvaða leiðir þeir ætla að nota til að styðja við framkvæmd áætlunarinnar.

Í ár vill svo til að samhliða degi líffræðilegs fjölbreytileika eru haldnir tveir fundir á vegum undirstofnana Samningsins um líffræðilega fjölbreytni, sem báðir fara fram í Naíróbí í Kenýa. Um er að ræða 26. fund vísinda- og tækninefndar (SBSTTA) sem haldinn var 13.–18. maí og fjórða fund undirstofnunar um framkvæmd samningsins (SBI) sem haldinn er dagana 21.–29. maí. Náttúrufræðistofnun Íslands á þrjá fulltrúa á fundunum.

Vonast er til að alþjóðlegur dagur líffræðilegs fjölbreytileika auki skriðþunga þessa mikilvæga málefnis í aðdraganda 16. fundar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (COP-16) sem haldinn verður í Kólumbíu 21. október til 1. nóvember á þessu ári.

Vefur Samningsins um líffræðilega fjölbreytni

Alþjóðlegur dagur líffræðilegrar fjölbreytni