Kortagerðarfólk framtíðarinnar

Nýverið var haldin uppskeruhátíð ungs kortagerðafólks í Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla þar sem kynntar voru afurðir nemendaverkefnis sem unnið var í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands á Breiðdalsvík. 

Markmið verkefnisins var nemendur kynntust undirstöðum kortagerðar og lærðu að vinna með raunveruleg gögn, eins og loftmyndir og kort af ýmsum toga. Upplýsingar voru merktar inn á grunnkort og GPS-tæki notuð til að safna hnitum og ferlum úti í mörkinni. Með þessum verkfærum kortlögðu nemendur búsetu sína, uppáhaldsstaði og göngustíga- og gangstéttakerfi þorpanna tveggja, ásamt því að gera tillögur að göngustígum og gangstéttum þar sem vöntun er á. Elstu nemendurnir tóku við gögnum frá þeim yngri og unnu úr þeim í kortagerðarhugbúnaðinum QGIS. Þar voru skönnuð grunnkort hnituð, gögn sótt í GPS-tæki, punktar, línur og flákar teiknaðir og fyllt út í eigindatöflur, að lokum var hannað útlit og framsetning upplýsinga á kortunum. 

Afrakstur verkefnisins eru fimm kort, hvert með sínu sniði. Meðal annars eru lagðar fram tillögur að göngustígum og gangstéttum á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Athygli vakti hvað unglingarnir voru fljótir að ná áttum í hugbúnaði sem flestir kynnast ekki fyrr en í háskóla. Hver veit nema þarna séu á ferðinni verðandi landupplýsingasérfræðingar Náttúrufræðistofnunar.