Megineldstöðin Krafla er staðsett norður af Mývatni. Eldstöðvakerfi Kröflu er hluti af Norðurgosbeltinu og er það um 100 km langt. – Ljósm. Kristján Jónasson
Í vísindaritinu Earth and Planetary Science Letters birtist nýverið grein sem fjallar um bergefnafræði allra 9 gosa í Kröflueldum 1975-1984.
Samsetning gosefna endurspeglar tvenns konar uppruna. Annars vegar er frekar frumstæð kvika sem kemur frá neðri hluta skorpunnar, nærri möttlinum. Hins vegar er þróaðri kvika sem kemur úr efri hluta skorpunnar. Í sumum gosanna í Kröflueldum kom eingöngu önnur gerðin upp en í öðrum gosum Kröfluelda komu báðar gerðir upp samtímis.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru settar í samhengi við jarðeðlisfræðilegar rannsóknir á Kröflueldum og sett eru fram tvö líkön sem geta útskýrt bæði jarðeðlisfræðileg og bergefnafræðileg gögn.
Kristján Jónasson jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun tók þátt í rannsókninni og er meðal höfunda að greininni.