Dagur jarðbreytileikans

Alþjóðlegur dagur jarðbreytileikans (e. geodiversity) er haldinn ár hvert þann 6. október.  Þema dagsins í ár er „Varðveitum fortíðina, tryggjum sjálfbæra framtíð“ (e. “Conserving the Past, Sustaining the Future”). 

Jarðbreytileiki nær yfir allar jarðminjar, eins og berg, steindir og steingervinga, en einnig jarðveg, grunnvatn, landform og virk ferli eins og strandrof, skriðuföll og jarðskjálfta. Náttúrulegt landslag endurspeglar jarðbreytileika og án jarðbreytileikans væri enginn lífbreytileiki. Jarðbreytileiki skiptir okkur öll miklu máli því þangað sækjum við flest allt sem tilheyrir okkar daglega lífi, til dæmis byggingarefni, málma, gler og orkugjafa. 

Þema dagsins í ár felur í sér annars vegar að varðveita jarðbreytileikan og læra af jarðsögulegum atburðum, sérstaklega þeim sem tengjast náttúruhamförum eins og flóðum, skriðuföllum og loftslagsbreytingum. Hins vegar að viðhalda jarðbreytileikanum með sjálfbærri nýtingu jarðefna og endurnýta betur þau efni sem hafa verið unnin úr jörðu. Þá er mikilvægt að samfélög heims geri sér grein fyrir að jarðmyndanir eru takmarkaðar auðlindir sem eyðast eftir því sem af þeim er tekið og yfirleitt er ekki hægt að endurheimta þær. 

Jarðbreytileikanum verður fagnað víða um heim eins og sjá má á vefnum Geodiversity Day.

Gleðilegan dag jarðbreytileikans!