Birkifræ (Betula pubescens) sem vex á ætisskál. – Ljósm. Kolfinna Ólafsdóttir
Á Hrafnaþingi miðvikudaginn 30. október kl. 15:15–16:00, mun Kolfinna Ólafsdóttir auðlindafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun flytja erindið „Áhrif vaxtarörvandi jarðvegsbaktería á birki – möguleikar í landgræðslu og endurheimt vistkerfa á Íslandi“.
Í erindinu verður fjallað um niðurstöður úr meistaraverkefni Kolfinnu þar sem sýnt er fram á mikilvægi baktería í jarðvegi en þar virðast þær stjórna mikilvægu jafnvægi moldarinnar og geta haft áhrif á vöxt gróðurvistar í sandauðnum. Markmið verkefnisins var að meta vaxtarörvandi áhrif íslenskra jarðvegsbaktería á plöntu, þá sérstaklega birki (Betula pubescens), til að nýta í uppgræðslu íslenskra sandauðna.
Erindið verður flutt í fundaraðstöðu starfsstöðvar Náttúrufræðistofnunar að Borgum við Norðurslóð, Akureyri. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams.
Hægt er að fylgjast með dagskrá Hrafnaþings á vef Náttúrufræðistofnunar og áhugasömum er bent á að skrá sig á póstlista á natt@natt.is.