Holdafar rjúpna er með ágætum

Holdafar rjúpna nú í haust er með ágætum. Ferillinn fyrir holdastuðul fullorðinna fugla stefnir upp á við og þeir eru í betri holdum en í fyrra. Marktækur munur var milli aldurshópa og kynja, en ungir fuglar, og þá sérstaklega kvenfuglar, voru í verri holdum en fullorðnir fuglar. Þetta sýna mælingar á fuglum sem veiddir voru á Norðausturlandi mánaðarmótin október-nóvember.

Fylgst hefur verið með holdafari rjúpna síðan 2006. Eitt af því sem komið hefur í ljós er að mikill munur er á holdafari rjúpna eftir árum; ungfuglar eru að jafnaði í lakari holdum en fullorðnir fuglar en breytingar á milli ára eru þær sömu hjá báðum aldurshópum. Þessi mælikvarði á „hreysti“ rjúpunnar endurspeglar eitthvað sem fuglarnir hafa reynt í lífi sínu mánuðina á undan, það er yfir sumar og haust.

Í nóvember voru rannsakaðir 296 fuglar sem skotnir voru 25. október til 5. nóvember í Þingeyjarsýslum. Allir fuglarnir voru aldurs- og kyngreindir á ytri einkennum og vigtaðir, auk þess sem þrjú stærðarmál voru tekin: hauslengd, ristarlengd og vænglengd. Einnig var sarpur tæmdur ef fæða var í honum og innihald vegið.

Gerð var tölfræðigreining á öllu gagnasafninu 2006–2024 (4350 fuglar) og sýna niðurstöður að þó ekki sé línuleg leitni í tíma (samfelld aukning eða fækkun) er ástand fugla breytilegt milli ára, en ferillinn rís og hnígur. Marktæk samvirkni var á milli ára og aldurs, það er báðir ferlarnir rísa og hníga samstíga, en þó er ekki algilt að ungar séu í slakari holdum en fullorðnir. Auk þess var marktækur munur á holdastuðli milli aldurs og kyns, það er ungir fuglar, og þá sérstaklega kvenfuglar, voru almennt í verra ástandi heldur en fullorðnir fuglar. 

Samanborið við fyrri ár er holdafar rjúpna nú í haust með ágætum og hærra en við var búist vegna lélegrar viðkomu í sumar

Minnisblað um holdafar rjúpna.