Kristinn Haukur Skarphéðinsson, minning
Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun lést þann 16. nóvember síðastliðinn og verður jarðsunginn í dag þann 4. desember. Með fráfalli hans hefur íslenskt vísindasamfélag misst einstakan sérfræðing og hugsjónarmann sem helgaði líf sitt rannsóknum á náttúru landsins.
Kristinn Haukur hóf störf hjá Náttúrufræðistofnun árið 1976, samhliða námi í líffræði við Háskóla Íslands. Hann lauk meistaraprófi í dýravistfræði í Bandaríkjunum og starfaði samfellt á stofnuninni frá árinu 1993 til æviloka. Starfsævi hans spannaði þannig áratugi þar sem hann vann fyrst sem sérfræðingur og síðar sem yfirmaður fagsviðs dýrafræði og stýrði ýmsum lykilrannsóknum á sviði stofnunarinnar.
Fuglar voru helsta rannsóknarefni Kristins Hauks. Hann skráði og kortlagði varpútbreiðslu íslenskra fugla, skilgreindi mikilvæg fuglasvæði og verndargildi þeirra, og mat fuglastofna á válista. Hann leiddi rannsóknir og vöktun á íslenska hafarnarstofninum og skipuðu rannsóknir hans á lífsvenjum og búsvæðum arnarins honum í fremstu röð meðal fræðimanna á alþjóðavettvangi. Ástríða hans fyrir viðfangsefninu var mikil og þekkingin einstök; árlega heimsótti hann öll arnaóðul landsins, hann þekkti óðalsfuglana persónulega – hafði oftar en ekki merkt þá sem unga í hreiðri einhverjum árum áður – hann gat rakið ævisögu þessara einstaklinga og líka afkomanda þeirra er kynslóð tók við af kynslóð í samfélagi arnanna. Allar þessar upplýsingar voru skráðar niður, en Kristinn Haukur lagði þær líka á minnið og á góðum stundum gat hann þulið þær utan að. Meistaraverkefni Kristins Hauks á sínum tíma fjallaði um hrafna og hann var oft fenginn af fjölmiðlum til að ræða um líf og hegðun hrafna og vægi tegundarinnar í þjóðtrú Íslendinga. Á síðustu áratugum hafa hrafnar numið land á höfuðborgarsvæðinu og þessir borgarhrafnar byggja sér laupa bæði í trjám og á mannvirkjum. Kristinn Haukur skráði landnám hrafna í borginni og hvert vor hélt hann út á „mörkina“ þessara erinda, jafnvel á liðnu vori – þorrinn krafta vegna erfiðra veikinda – fór hann til fundar við þessa vini sína.
Kristinn Haukur var örlátur á að deila þekkingu sinni í fræðunum, bæði í ræðu og riti, og eftir hann liggja fjölmargar greinar og bókakaflar. Hann var eftirsóttur fyrirlesari sem miðlaði jafnt til sérfræðinga sem almennings með skýrum og aðgengilegum frásögnum. Nýtt starfsfólk á Náttúrufræðistofnun naut leiðsagnar hans, enda fór hann aldrei í manngreiningarálit og var ómetanleg fyrirmynd í samstarfi og fræðslu.
Kristinn Haukur var afburða greindur með víðtæka þekkingu á ýmsum sviðum. Hann naut þess að miðla henni, hvort sem það var yfir kaffibolla á kaffistofunni eða á skipulögðum viðburðum. Með skemmtilegum og lifandi frásögnum, fullum af húmor og innsæi, átti hann auðvelt með að heilla áheyrendur.
Fjölskylda Kristins Hauks var honum kær. Hann talaði alltaf með ástúð og hlýju um eiginkonu sína, Unni Steinu, og börnin þeirra, Kristínu Helgu og Björn. Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar vottar þeim dýpstu samúð á erfiðum tímum.
Að leiðarlokum kveður starfsfólk Náttúrufræðistofnunar kæran samstarfsfélaga með djúpri virðingu og söknuði. Blessuð sé minning Kristins Hauks Skarphéðinssonar.






