Geirfugl (Pinguinus impennis)

Útbreiðsla

Geirfuglar urpu við norðanvert Atlantshaf og eru þrír varpstaðir þekktir hér með vissu: Geirfuglasker undan Reykjanesi og síðar Eldey, eftir að skerin hurfu í sjó við jarðhræringar árið 1830, og loks Geirfuglasker í Vestmannaeyjum (Arnþór Garðarsson 1984, Hjálmar R. Bárðarson 1986, Lúðvík Kristjánsson 1986, Örnólfur Thorlacius 1998).

Stofnfjöldi

Á sögulegum tíma var íslenskur varpstofn geirfugls talinn nema nokkrum hundruðum til fáeinna þúsunda para (Arnþór Garðarsson 1984). Geirfugl er útdauður hér sem og annars staðar í heiminum. Þegar síðustu geirfuglarnir voru drepnir í Eldey 1844 hafði stofninn verið á niðurleið öldum saman vegna ofveiði. Geirfuglsbein hafa fundist í gömlum öskuhaugum en einungis á svipuðum slóðum og vitað er að fuglarnir urpu undir það síðasta, þ.e. á suðvesturhorni landsins og í Vestmannaeyjum (Ævar Petersen 1995).

Lífshættir

Geirfuglinn var stærstur svartfugla, um 70 cm langur og um það bil 5 kg á þyngd, mun stærri en núlifandi ættingjar hans, álka, langvía og stuttnefja. Hann varp einu eggi og talið er að unginn hafi, 9 daga gamall, farið með foreldrum sínum á sjó um miðjan júlímánuð (Bengtson 1984, Ævar Petersen 1995).

Geirfugl í þrívídd

Geirfuglsegg í þrívídd

Válistaflokkun

EX (útdauð tegund)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
EX EX EX

Forsendur flokkunar

Geirfuglinn varð útdauður árið 1844 en þá voru tveir síðustu fuglarnir sem vitað er um í heiminum drepnir í Eldey undan Reykjanesi. 

Global position

Á sögulegum tíma var geirfugl algengastur við Nýfundnaland þar sem fuglunum var slátrað gegndarlaust. Geirfuglar urpu einnig á eyjum við strendur Norðvestur-Evrópu fram yfir aldamótin 1800 (Bourne 1993).

Ógnir

Geirfuglinn var nýttur hér öldum saman. Hann var ófleygur og því auðveld bráð á varpstöðvunum. Á Nýfundnalandi smöluðu sjómenn fuglunum saman í réttir og rotuðu þá. Eftir miklu var að slægjast því hver fugl gaf um 1,5 kg af kjöti auk fitu og lýsis.

Myndir

Heimildir

Arnþór Garðarsson 1984. Fuglabjörg Suðurkjálkans. – Árbók Ferðafélags Íslands 1984: 127-160.

Bengtson, S.-A. 1984. Breeding ecology and extinction of the Great Auk (Pinguinus impennis): anecdotal evidence and conjectures. – Auk 101: 1-12.

Bourne, W.R.P. 1993. The story of the Great Auk Pinguinis impennis. – Archives of Natural History 20: 257-278.

Hjálmar R. Bárðarson 1986. Fuglar Íslands. – Hjálmar R. Bárðarson, Reykjavík. 336 bls.

Lúðvík Kristjánsson 1986. Íslenskir sjávarhættir. 5. bindi. – Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík. 498 bls.

Ævar Petersen 1995. Brot úr sögu geirfuglsins. – Náttúrufræðingurinn 65: 53-66.

Örnólfur Thorlacius 1998. Geirfuglinn, lífshættir og afdrif. – Bls. 413-431 í Þjóðlíf og þjóðtrú. Ritgerðir helgaðar Jóni Hnefli Aðalsteinssyni. Þjóðsaga, Reykjavík.

Author

Kristinn Haukur Skarphéðinsson júní 2018, október 2018

Biota

English Summary

The Great Auk became extinct (EX) in 1844 when the last known pair in the world was captured on the island of Eldey off the southwest coast of Iceland.