Ár á eldri berggrunni án votlendisáhrifa
V2.4 Ár á eldri berggrunni án votlendisáhrifa
EUNIS-flokkun: C2.2 Permanent non-tidal, fast, turbulent watercourses.


Lýsing
Dragár og lækir án glöggt afmarkaðra upptaka, á eldri berggrunni landsins (>0,8 milljónir ára). Rennslisleið er gjarnan stutt, landhalli mikill og viðdvöl í stöðuvötnum er lítil sem engin, þ.e. rennslisjöfnun er engin (þekja stöðuvatna, tjarna eða votlendis er <12% á vatnasviðinu). Árnar einkennast af breytilegu rennsli og vatnshita. Vatnsmagn eykst í leysingum og úrkomu svo árnar flæða yfir bakka sína og eru vor- og sumarflóð áberandi. Árnar leggur fljótt í frostum, en vatnshiti fer eftir veðráttu. Farvegir eru oft mikið niðurgrafnir, bakkar rofnir, árframburður töluverður og áreyrar algengar. Iðustreymi er ríkjandi, en árkaflar með lagstreymi geta komið fyrir.
Vatnagróður
Lítt þekktur á landsvísu. Þekja vatnagróðurs er lítil og helstu tegundir eru ármosi (Fontinalis antipyretica) og þráðnykra (Stuckenia filiformis).
Botngerð
Fjölbreytt, allt frá fínum sandi til klappar. Fíngert botnset kemur fyrir, einkum við bakka.
Efnafræðilegir þættir
Rafleiðni vatns er gjarnan 20–60 µS/cm og styrkur uppleystra efna er lægri en í ám á ungum berggrunni.
Miðlunargerð á vatnasviði
Kemur fyrir á öllum miðlunargerðum, þó allra síst á hriplekum svæðum (2100) og treglekum (2200) svæðum.
Fuglar
Straumendur (Histrionicus histrionicus) eru allvíða og gulendur (Mergus merganser) sums staðar.
Útbreiðsla
Finnst um allt land, en síst á yngri berggrunni landsins.
Verndargildi
Lágt.
