Ár á eldri berggrunni með votlendisáhrifum

Ár á eldri berggrunni með votlendisáhrifum

Lýsing

Dragár og lækir án glöggt afmarkaðra upptaka, á eldri berggrunni landsins (>0,8 milljón ára). Árnar eru rennslisjafnaðar af stöðuvötnum, tjörnum og votlendi á heiðum (þar sem þekja stöðuvatna, tjarna eða votlendis á vatnasviðinu er ≥12%) svo að viðstöðutími vatnsins er lengri en ella og vatnshiti er stöðugri. Vatnsrennsli er breytilegt vegna leysinga og úrkomu og getur vatnsmagn aukist það mikið að árnar flæða yfir bakka sína. Farvegir eru oft mikið niðurgrafnir, bakkar rofnir, árframburður töluverður og áreyrar algengar. Iðustreymi er ríkjandi, en árkaflar með lagstreymi geta komið fyrir.

Vatnagróður

Lítt þekktur á landsvísu. Í útfalli stöðuvatna og í lygnum við bakka þar sem set sest til getur t.d. vaxið síkjamari (Myriophyllum alterniflorum), þráðnykra (Stuckenia filiformis), flagasóley (Ranunculus reptans) og ármosi (Fontinalis antipyretica).

Botngerð

Fjölbreytt, allt frá fínum sandi til klappar. Fíngert lífrænt set kemur fyrir, einkum við bakka.

Efnafræðilegir þættir

Rafleiðni er gjarnan 60–160 µS/cm og sýrustig um pH 8. Styrkur uppleystra efna er lægri en í ám á ungum berggrunni.

Miðlunargerð á vatnasviði

Kemur fyrir á öllum miðlunargerðum, þó allra síst á hriplekum svæðum (2100) og treglekum (2200) svæðum.

Fuglar

Straumendur (Histrionicus histrionicus) eru allvíða og gulendur (Mergus merganser) sums staðar.

Útbreiðsla

Finnst um allt land, síst á yngri jarðlögum landsins.

Verndargildi

Miðlungs. Vistgerðin  er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.