Hálendistjarnir
V1.6 Hálendistjarnir
EUNIS-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. C1.8 Icelandic highland ponds.


Lýsing
Tjarnir og grunn smávötn í vel grónu votlendi hátt til fjalla; í rústamýravist, hengistararflóavist, gulstararflóavist, tjarnastararflóavist og rekjuvist sem eru skilgreindar landvistgerðir. Land er hallalítið og vel gróið votlendisgróðri. Starir og fífur ásamt mosum mynda oft þéttan gróðurkraga á bökkum tjarnanna. Tjarnirnar eru grynnri en 1 m og geta þornað upp tímabundið.
Vatnagróður
Lítt þekktur á landsvísu. Botn stærri tjarna er yfirleitt gróðurlaus, en í minni tjörnum getur botninn verið þakinn mosa, einkum tjarnahrók, kransþörungnum tjarnanál eða haustbrúðu. Aðrar mosategundir eru lindakló, keldukló og tjarnakrækja. Æðplöntur eru tiltölulega sjaldgæfar.
Botngerð
Ýmist fíngerður leir og set eða fastur leirbotn, sums staðar blandaður sandi eða vikri.
Efnafræðilegir þættir
Lítt þekktir. Rafleiðni vatns er iðulega hærri í hálendistjörnum en í öðrum vatnavistgerðum á hálendinu, þ.e. í kransþörungavötnum á hálendi og gróðurlitlum hálendisvötnum.
Miðlunargerð vatnasviðs
Votlendismiðlun á hálendi (3100), jarðvegs- og setmiðlun á hálendi (3200) og setmiðlun (3300). Koma fyrir á treglekum svæðum (2200).
Fuglar
Víðast hvar lítið fuglalíf, einna helst óðinshani (Phalaropus lobatus) og álft (Cygnus cygnus), sums staðar hávella (Clangula hyemalis) og heiðagæs (Anser barachyrhynchus) sem verpur á bökkunum.
Útbreiðsla
Á hálendi, í meira en 450 m h.y.s. Orravatnsrústir, Ásgeirstungur, Guðlaugstungur, Blágnípuver, Miklumýrar, Þjórsárver, Hrossatungur, Lauffellsmýrar, Stórikrókur, Þorláksmýrar, Vesturöræfi og heiðar norðaustan Vatnajökuls.
Verndargildi
Hátt.

Algengustu tegundir gróðurs – Most common vegetation species | |
---|---|
Haustbrúða | Callitriche hermaphroditica |
Lónasóley | Batrachium eradicatum |
Flagasóley | Ranunculus reptans |
Trefjasóley | Ranunculus hyperboreus |
Þráðnykra | Stuckenia filiformis |
Lófótur | Hippuris vulgaris |
Fergin | Equisetum fluviatile |
Tjarnanál | Nitella opaca |
Tjarnahrókur | Calliergon giganteum |
Lindakló | Sarmentypnum exannulatum |
Keldukló | Warnstorfia tundrae |
Tjarnakrækja | Scorpidium scorpioides |