Jökulvötn

Jökulvötn

V1.7

EUNIS-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. C1.9 Icelandic glacier-fed lakes;  fjörubelti – littoral zone: C3.64  Exposed unvege­tated freshwater lake sands and shingles.

Lýsing

Djúp og grunn vötn rík af svifaur (jökulskotin), ýmist við rætur jökla eða á rennslisleið jökuláa. Til vistgerðarinnar teljast sporðlón, jökullón, jökulker, vötn sem myndast í gígum þegar jökulhetta bráðnar, svo og miðlunar- og veitulón. Lífsskilyrði eru alla jafna erfið, einkum vegna svifaursins sem takmarkar ljós til frumframleiðenda bæði á botni og í svifi. Einnig hafa vatnsborðssveiflur með tilheyrandi tilfærslu á ljóstillífunarlagi neikvæð áhrif á lífsskilyrði frumframleiðenda í fjörubelti. Vistkerfin geta verið ung og framvinda því skammt á veg komin og tegundasamsetning fábreytt.

Vatnagróður

Óþekktur á landsvísu. Æðplöntur eru ekki til staðar eða sjaldgæfar, hins vegar eru botn- og sviflægir kísilþörungar algengir í fjörubeltinu. Einnig koma þráðlaga grænþörungar og mosar fyrir á steinum í fjöruborðinu.

Botngerð

Í stærri vötnum er harður botn, gjarnan fíngert set (leir og silt), ásamt sandi og möl.

Efnafræðilegir þættir

Styrkur fosfórs (P) er hár, en styrkur niturs (N) er yfirleitt lágur. Rafleiðni vatns er tiltölulega lág og sýrustig (pH) er svipað því sem þekkist í öðrum íslenskum vötnum.

Miðlunargerð vatnasviðs

Vötnin koma fyrir á öllum miðlunargerðum, að mýravötnum undanskildum (3500).

Fuglar

Fuglalíf á náttúrulegum jökulvötnum er víðast hvar afar lítið, en við sum þeirra fellir mikið af gæsum flugfjaðrir og lómar (Gavia stellata) verpa allvíða. Fyrstu árin eftir myndun miðlunar- og veitulóna skolast út mikið af næringarefnum og er því nokkurt fuglalíf þar á þeim tíma, einkum hávellur (Clangula hyemalis).

Útbreiðsla

Finnst á há- og láglendi, við rætur jökla og á rennslisleið jökuláa.

Verndargildi

Lágt.