Kaldar lindir
V2.1 Kaldar lindir
EUNIS-flokkun: C2.111 Fennoscandian mineral-rich springs and springfens.


Lýsing
Kaldar lindir koma fram þar sem grunnvatn streymir út á yfirborðið um uppsprettur á landi, t.d. undan hraunjaðri, eða á vatnsbotni. Lindum er gjarnan skipt í tjarnarlindir þar sem vatnið hefur viðstöðu í tjörn eða stöðuvatni og straumvatnslindir þar sem vatn streymir fram og myndar læk. Helstu einkenni linda eru jafnt rennsli og stöðugur vatnshiti árið um kring. Umhverfisaðstæður í lindum breytast mjög hratt þegar fjær dregur uppsprettunni og mörkin á milli uppsprettu og afrennslis hennar eru oft ekki skýr. Iðustreymi er ríkjandi. Tvær tegundir einlendra grunnvatnsmarflóa, Crymostygius thingvallensis og Crangonyx islandicus, eru bundnar við grunnvatn og hafa eingöngu fundist í tengslum við lindir. Rannsóknir á dvergbleikju í lindum hér á landi hafa leitt í ljós mikinn fjölda erfðafræðilega afmarkaðra stofna.
Vatnagróður
Lítt þekktur á landsvísu. Æðplöntur eru ekki til staðar eða sjaldgæfar. Mosar eru útbreiddir, t.d. lindaskart (Pohlia wahlenbergi) og hnappmosar (dýjamosar, Philonotis) og einnig þörungar og þörungaslý, t.d. ýmsar tegundir kísilþörunga, lækjagörn og blágrænubakteríur.
Botngerð
Grýttur og sendinn botn, oft lítt veðrað hraungrýti. Mjúkt vatnaset kemur fyrir.
Efnafræðilegir þættir
Rafleiðni er iðulega 61–255 µS/cm, pH 8–10 og vatnshiti 3–7°C.
Miðlunargerð vatnasviðs
Á hriplekum (2100) og treglekum (2200) svæðum. Lindir koma einnig fyrir á öðrum miðlunargerðum.
Fuglar
Ekkert fuglalíf að staðaldri.
Útbreiðsla
Finnst fyrst og fremst á virku gosbeltunum, einkum við hraunjaðra. Utan gosbeltanna spretta lindir fram við stórar bergskriður eða framhlaup.
Verndargildi
Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
