Strandvötn

Strandvötn

V1.8

EUNIS-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. C1.A Icelandic coastal lakes; fjörubelti – littoral zone: C3.2 Water-fringing reedbeds and tall helophytes other than canes.

Lýsing

Agnar Ingólfsson (1990) lýsir strandvötnum svo: „Strandvötn eru lón, sem alla jafnan hafa ekki afrennsli til sjávar, eða hafa ós til sjávar sem liggur svo hátt, að sjór fellur ekki inn í þau nema við óvenjulegar aðstæður (t.d. við óvenju hátt flóð með álandsvindi). Í allmörgum tilvikum eru lón þessi tilbúin af mönnum, og hefur sennilega oftast verið um leirulón að ræða áður en ós þeirra var stíflaður.“ Yfirborðsselta er lág (<10 S) eða engin. Í dýpstu vötnunum mælist selta hærri við botn en yfirborð og eru vötnin lagskipt með tilliti til seltu. Strandvötn skilja sig frá öðrum íslenskum stöðuvötnum að því leyti að í þeim geta lifað marflær og þyrildýr sem þekkt eru úr sjó og ísöltu vatni. Strandvötnum svipar nokkuð til flatlendisvatna.

Vatnagróður

Lítt þekktur á landsvísu. Eftirfarandi tegundir hafa fundist: síkjamari, þráðnykra, kransþörungar, fjallnykra, langnykra, álftalaukur og lófótur.

Botngerð

Lítt þekkt á landsvísu. Möl og sandur einkenna fjörubeltið og botnsetið er ýmist gljúpt eða sendið.

Efnafræðilegir þættir

Lítt þekktir á landsvísu. Strandvötn eru næringar­efnasnauð m.t.t. fosfórs (P) og niturs (N), en þar sem fuglalíf er mikið getur styrkur niturs verið hærri. Rafleiðni er háð seltu og hefur mælst á bilinu 112 µS/cm til 17,5 mS/cm.

Miðlunargerð vatnasviðs

Vötnin koma fyrir á öllum miðlunargerðum, að votlendismiðlun á hálendi (3100) undanskilinni.

Fuglar

Víða mjög mikið fuglalíf; oft æðarvarp (Somateria mollissima), endur í varpi og fjaðrafelli, álftir (Cygnus cygnus) og grágæsir (Anser anser) í fjaðrafelli og himbrimi (Gavia immer) og lómur (G. stellata) í varpi.

Útbreiðsla

Finnst við ströndina í flestum landshlutum, einkum á Norðurlandi, Reykjanesskaga og Snæfellsnesi.

Verndargildi

Hátt.

Algengustu tegundir gróðurs – Most common vegetation species
Síkjamari Myriophyllum alterniflorum
Þráðnykra Stuckenia filiformis
Fjallnykra Potamogeton alpinus
Langnykra Potamogeton praelongus
Álftalaukur Isoetes echinospora
Lófótur Hippuris vulgaris
Ógr. kansþörungar Nitella spp.

Opna í kortasjá