Fjörupollar

Lýsing

Fjörupollar eru í allflestum fjörum og eru algengastir í lægðum eða holum í klapparfjörum þar sem vatn situr eftir þegar fjarar út. Oft er þunnt lag af sandi á botninum í þessum pollum. Þeir eru mismunandi að gerð og mynda ekki eina gerð vistgerðar heldur ákveðin fjörusvæði. Þau eru ólík öðrum hlutum fjörunnar að því leyti að aldrei þornar á lífverunum sem þar búa. Þegar rignir getur seltan í fjörupollum lækkað nokkuð og á það sérstaklega við um grunna fjörupolla og þá sem eru ofarlega í fjörunni. Hitastig í grunnum fjörupollum ofarlega í fjöru getur einnig hækkað talsvert á sólríkum dögum. Eftir því sem pollarnir eru dýpri og neðar í fjörunni, þeim mun hærri og jafnari helst seltan, og þar með er lífríkið meira og stöðugra.

Til er fjöldinn allur af margvíslegum fjörupollum. Þar koma saman, í ýmsum hlutföllum, tegundir sem eru bundnar við fjöruna og tegundir sem aðeins lifa neðan fjörunnar, þ.e. tegundir sem ekki þola að þorna á fjöru. Efst í klapparfjörum finnast fjörupollar þar sem beltisþang og pollaafbrigði sagþangs er ríkjandi. Ofarlega í fjörunni er einnig algengt að kóralþang sé ríkjandi í pollunum. Í djúpum pollum sem eru um eða neðan við miðbik fjöru, eru oft þörungar sem annars vaxa aðeins neðan fjörunnar. Yfirleitt eru fjörupollar tegundaríkir af plöntum og dýrum og er þetta því mjög fjölbreytilegt fjörusvæði.

Fjörubeður

Klappir, sandur, harður mór.

Fuglar

Ýmsar fuglategundir sækja í fjörupolla til fæðuöflunar, einkum stelkur, æðarfugl og stokkönd.

Líkar vistgerðir

Þangfjörur.

Útbreiðsla

Einna helst þar sem eru klapparfjörur. Vítt og breitt um landið. Fjörupollar myndast aðallega í klóþangsfjörum, bóluþangsfjörum og fjörumó.

Verndargildi

Hátt.

Áberandi gróður – Conspicuous vegetation Áberandi dýr – Conspicuous animals
Beltisþang Fucus distichus f. linearis Mottumaðkur Fabricia stellaris
Sagþang, pollaafbrigði Fucus serratus Nákuðungur Nucella lapillus
Kóralþang Corallina officinalis Pollatígur Tigriopus brevicornis
Söl Palmaria palmata Þanglýs Idotea spp.
Kólgugrös Devaleraea ramentacea Ánar Oligochaeta
Grænþörungaættkvísl Ulva spp. Olnbogaskel Testudinalia testudinalis
Sjóarkræða Mastocarpus stellatus Þangdoppa Littorina obtusata
Þari Laminaria spp. Kræklingur Mytilus edulis
Sjóarhrís Ahnfeltia plicata Hrúðurkarl Semibalanus balanoides
Kalkskorpur Corallinaceae Mærudoppa Skeneopsis planorbis
Grænskúfur Cladophora sericea Brauðsvampur Halichondria panicea