Sjávarlón

FX.1 Sjávarlón

EUNIS-flokkun: X02 Saline coastal lagoons, X03 Brackish coastal lagoons.

Lýsing

Sjávarlón eru aðgreind frá sjónum af einhvers konar þrengslum sem hefta sjávarföll verulega, t.d. sandgarðar, hrauntangar og vegir (Agnar Ingólfsson 2005). Ósar við sjávarlón eru ýmist opnir eða lokaðir og aðgengi til sjávar eru misjafnt. Sjávarföllum seinkar inn í lónin, þau eru skert eða jafnvel engin, og venjulega tekur útfallið lengri tíma en aðfallið. Í sumum lónum fellur sjór upp á hverju flóði, í öðrum ekki nema örsjaldan. Vegna skertra sjávarfalla eru fjörur sjávarlóna oft fremur litlar. Ósar geta víkkað eða þrengst, af náttúrulegum orsökum eða vegna athafna mannsins og geta lónin breyst mikið við það (Agnar Ingólfsson 1990, 2005).

Selta sjávarlóna er breytileg og fer það eftir þáttum eins og innstreymi ferskvatns, tíðni storma, sjávarföllum og aðstreymi sjávar í lónið. Alla jafna er seltan frá 10 seltustigum og upp í fullsaltan sjó (35 S). Lífríki er oft frekar fábreytt og almennt minnkar fjölbreytni með minni seltu, auk þess sem gerð fjörubeðs hefur áhrif á tegundasamsetningu. Í stöku tilvikum finnast sjávartegundir, t.d. fjöruflóin Gammarus dubeni, í ósöltum stöðuvötnum nálægt sjó (Agnar Ingólfsson 1990) og teljast slík vötn ekki til sjávarlóna. Oft eru mörk á milli sjávarlóna, árósa og strandvatna óljós en selta er yfirleitt notuð til að greina á milli. Ef selta var óþekkt voru loftmyndir notaðar til að meta hversu greiðan aðgang sjór hefur að lóninu.

Lýsing á sjávarlónum byggist nær eingöngu á riti Agnars Ingólfssonar (1990) en hún tekur til lóna sem eru stærri en 10 ha. Við ströndina eru hins vegar til fleiri og smærri lón sem mætti líklega flokka til sjávarlóna en þau eru öll nánast ókönnuð. Sjávarlón eru flokkuð í háseltulón og leirulón, m.a. eftir seltu, gerð óss, sjávarföllum og fjörubeði. Til dæmis eru háseltulón alla jafna með mikla seltu á meðan hún er breytileg í leirulónum.

Fjörubeður

Hnullungar, steinvölur, möl, sandur, leir.

Fuglar

Yfirleitt er fuglalíf mjög ríkt. Tegundasamsetning ræðst af botngerð og vatnsskiptum í lóninu.

Útbreiðsla

Víða um land en þau stærstu eru aðallega á vestanverðu landinu, einkum við Faxaflóa, og á Suðausturlandi.

Verndargildi

Verndargildi sjávarlóna ræðst af undirgerð þeirra.

Áberandi gróður – Conspicuous vegetation Áberandi dýr – Conspicuous animals
Klapparþang Fucus spiralis Sandmaðkur Arenicola marina
Bóluþang Fucus vesiculosus Leiruskeri Hediste diversicolor
Grænþörungaættkvísl Ulva spp. Sandskel Mya arenaria
Marhálmur Zostera angustifolia Kræklingur Mytilus edulis
    Lónaþreifill Pygospio elegans
    Ánar Oligochaeta
    Fjöruflær Gammarus spp.
    Hrukkubúlda Thyasira fexuosa
    Burstaormar Polychaeta
    Fjörulýs Jaera spp.

 

Opna í kortasjá – Open in map viewer

 

Heimildir

Agnar Ingólfsson 1990. Sjávarlón á Íslandi. Fjölrit nr. 21. Náttúruverndarráð. Reykjavík.

Agnar Ingólfsson 2005. Umhverfisrannsóknir í Gilsfirði. Þriðja rannsóknalota: Ástand umhverfis og lífríkis fimm til sex árum eftir þverun fjarðarins. Fjölrit nr. 74. Líffræðistofnun Háskólans. Reykjavík.