Bugðupuntsvist
L9.3 Bugðupuntsvist
Eunis-flokkun: E1.73 Wavy hair-grass grasslands.


Lýsing
Fremur rýrt graslendi, vaxið bugðupunti og fleiri grastegundum en einnig breiðblaða jurtum. Finnst einkum í neðanverðum hlíðum og brekkum og því yfirleitt í nokkrum halla. Allvíða stendur stórgrýti upp úr gróðri. Vistgerðin er vel gróin og gróður í meðallagi hávaxinn. Æðplöntur eru ríkjandi í þekju en mosar allmiklir í sverði. Fléttur finnast í nokkrum mæli.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum og mosum en síður af fléttum. Bugðupuntur (Deschampsia flexuosa) er með langmesta þekju æðplantna en hálíngresi (Agrostis capillaris) finnst einnig í allmiklum mæli. Algengastir mosa eru tildurmosi (Hylocomium splendens), engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), hrísmosi (Pleurozium schreberi) og hraungambri (Racomitrium lanuginosum), en algengustu fléttur eru engjaskóf (Peltigera canina), himnuskóf (P. membranacea) og hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula).
Jarðvegur
Áfoksjörð er einráð. Jarðvegur sem er þurr og fremur grunnur og kolefnisríkur en sýrustig lágt.
Fuglar
Meðalríkt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago gallinago) og heiðlóa (Pluvialis apricaria).
Líkar vistgerðir
Língresis- og vingulsvist, blómgresisvist.
Útbreiðsla
Finnst einkum um vestanvert landið og á Austfjörðum.
Verndargildi
Hátt.

