Eyravist

Lýsing

Blautar til þurrar áreyrar með jökulám og dragám og leysingafarvegir. Yfirborð er hallalítið og fremur slétt en óstöðugt vegna framburðar og ágangs vatns. Gróðurþekja er mjög lítil og gróður mjög lágvaxinn. Gróður þéttir sig helst er fjær dregur vatni og ágangur er minni, einkum er það mosinn melagambri (Racomitrium ericoides) sem myndar þar mesta þekju.

Plöntur

Tegundir æðplantna og mosa eru fáar og fléttur finnast vart. Af æðplöntum er mest um skriðlíngresi (Agrostis stolonifera) og túnvingul (Festuca rubra subsp. richardsonii). Algengastir mosa eru melagambri (Racomitrium ericoides), pollalufsa (Drepanocladus aduncus) og dýjahnappur (Philonotis fontana).

Jarðvegur

Er allþykkur, eyrarjörð eða sandjörð, næringar­snauð, rök eða blaut, með mjög lágt kolefnisinnihald en mjög hátt sýrustig.

Fuglar

Strjált og fábreytt fuglalíf, sandlóa (Charadrius hiaticula), heiðlóa (Pluvialis apricaria), sendlingur (Calidris maritima), lóuþræll (C. alpina), snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) og heiðagæs (Anser barachyrhynchus). Á láglendi má einnig vænta grágæsa (A. anser), svartbaks (Larus marinus), kríu (Sterna paradisaea) og spóa (Numenius phaeopus). Vegna vatnagangs er lítið varp í þessari vistgerð en fuglar sækja þangað nokkuð í ætisleit.

Líkar vistgerðir

Hélumosavist og auravist.

Útbreiðsla

Finnst um allt land, mest er um áreyrar umhverfis Vatnajökul og aðra stærri jökla landsins og meðfram fljótum sem frá þeim renna og í dölum á Tröllaskaga.

Verndargildi

Lágt.