Fjallahveravist

Fjallahveravist

L12.3

Eunis-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. C2.1432 Geothermal alpine habitats.

Lýsing

Deiglendis- og dýjablettir í brekkurótum, hvilftum og dældum á hálendinu eða þar sem heitt vatn rennur frá uppsprettum og vatnshverum. Þegar ofar dregur í brekkum verður land þurrara og þar finnast gufu- og leirhverir. Víða má sjá snjódældaráhrif á gróðurfari. Gróðurþekja er að jafnaði órofin þar sem rakast er. Mosar eru áberandi í þekju en æðplöntur vaxa oft strjált.

Plöntur

Fjöldi tegunda er nokkur. Fjallapuntur (Deschampsia alpina) er ríkjandi æðplantna. Hitakæra tegundin laugasef (Juncus articulatus) einkennir vistgerðina ásamt skriðlíngresi (Agrostis stolonifera), mýra­dúnurt (Epilobium palustre) og mýrfjólu (Viola palustria). Grasvíðir (Salix herbacea) og blávingull (Festuca vivipara) vaxa þar sem þurrara er. Jarðhitategundin naðurtunga (Ophioglossum azoricum) finnst víða en grámygla (Gnaphalium uliginosum) mun sjaldnar. Nokkuð er um snjódældategundir og eru fjallasmári (Sibbaldia procumbens) og grámulla (Omalotheca supina) algengastar. Fjaðurgambri (Racomitrium elongatum), laugaslyðra (Gymnocolea inflata) og flaganaddur (Nardia scalaris) eru algengustu mosarnir ásamt dýjahnappi (Philonotis fontana). Algengustu fléttutegundirnar eru engja­skóf (Peltigera canina) og grábreyskja (Stereocaulon alpinum).

Jarðvegur

Fremur þunnur jarðvegur og er víða ummyndaður af hita. Undirlag er oftast melar og vikur eða áreyrar.

Jarðhiti á 10 cm dýpi

Á bilinu 15–56°C; meðaltal 27°C (n=73).

Fuglar

Lítið sem ekkert fuglalíf.

Útbreiðsla

Eingöngu á háhitasvæðum á miðhálendinu.

Verndargildi

Hátt.

 

Jarðhitategundir æðplantna – Geothermal vascular plant species within the habitat type
Grámygla Gnaphalium uliginosum
Naðurtunga Ophioglossum azoricum