Fjalldrapamóavist

L10.6 Fjalldrapamóavist

Eunis-flokkun: F2.255 North Atlantic boreo-alpine heaths.

Lýsing

Þurrt, yfirleitt þýft, vel gróið mólendi vaxið fjalldrapa, krækilyngi, bláberjalyngi og fleiri mólendistegundum, ríkt af mosum og fléttum. Fremur hallalítið land á láglendi og til heiða. Gróður er fremur lágvaxinn, æðplöntur ríkjandi, en mosaþekja allmikil og fléttuþekja víðast hvar veruleg.

Plöntur

Vistgerðin er fremur rík af æðplöntu- og fléttutegundum en miðlungi rík af mosum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru krækilyng (Empetrum nigrum), fjalldrapi (Betula nana) og bláberjalyng (Vaccinium uliginosum). Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), móatrefja (Ptilidium ciliare), móasigð (Sanionia uncinata), urðalarfi (Barbilophozia hatcheri) og tildurmosi (Hylocomium splendens) en algengutu fléttur eru hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula), fjallagrös (Cetraria islandica), broddskilma (Ochrolechia frigida) og grábreyskja (Stereocaulon alpinum).

Jarðvegur

Áfoksjörð er ríkjandi. Jarðvegur er þurr, miðlungi þykkur, miðlungi ríkur af kolefni og sýrustig í meðallagi.

Fuglar

Allríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago gallinago), spói (Numenius phaeopus), heiðlóa (Pluvialis apricaria), lóuþræll (Calidris alpina) og rjúpa (Lagopus mutus).

Líkar vistgerðir

Víðikjarrvist og lyngmóavist á láglendi.

Útbreiðsla

Finnst á láglendi og til heiða í öllum landshlutum að undanteknum syðsta hluta landsins, er lang­útbreiddust á norðanverðu landinu.

Verndargildi

Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.