Fléttuhraunavist
L6.2 Fléttuhraunavist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. E4.241 Icelandic lava field lichen heaths.


Lýsing
Lítið til allvel gróin, hallalítil apal- og helluhraun, að mestu laus við foksand og vikur á yfirborði. Gróður er mjög lágvaxinn (<5 cm) og einkennist af breyskjufléttum (Stereocaulon sp.) og lífrænni jarðvegsskán (mest hélumosi) sem gefur hraununum sérstaka ásýnd. Vistgerðin finnst bæði á úrkomumiklum svæðum á sunnanverðu landinu þar sem mosarnir melagambri (Racomitrium ericoides) og hraungambri (R. lanuginosum) eru áberandi í þekju og á þurrari svæðum norðanlands þar sem breyskjufléttur og lífræn jarðvegsskán ríkja. Æðplöntuþekja er gisin.
Plöntur
Vistgerðin er frekar fátæk af æðplöntutegundum en mjög rík af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mest um grasvíði (Salix herbacea) en algengastir mosa eru heiðahéla (Anthelia juratzkana), melagambri (Racomitrium ericoides), hraungambri (R. lanuginosum), grænkólfa (Gymnomitrion concinnatum), lautalápur (Lophozia sudetica) og urðalápur (L. ventricosa). Algengustu fléttur eru vikurbreyskja (Stereocaulon arcticum), hraunbreyskja (S. vesuvianum), ryðkarta (Porpidia flavicunda) og skarlatbikar (Cladonia borealis).
Jarðvegur
Er grunnur, klapparjörð er ráðandi en einnig finnst sandjörð. Kolefnisinnihald fremur lágt og sýrustig í meðallagi.
Fuglar
Fábreytt fuglalíf, snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) og heiðlóa (Pluvialis apricaria) algengust, einnig steindepill (Oenanthe oenanthe) og rjúpa (Lagopus mutus).
Líkar vistgerðir
Engar.
Útbreiðsla
Finnst á ungum hraunum sunnanlands þar sem framvinda er skammt á veg komin og á hraunum inn til landsins norðanlands þar sem úrkoma er lítil.
Verndargildi
Miðlungs.

