Fléttumóavist
L10.5 Fléttumóavist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. E4.27 Icelandic lichen Racomitrium heaths.


Lýsing
Þurrt, þýft, fléttu- og mosaríkt mólendi vaxið krækilyngi, grasvíði, bláberjalyngi og fleiri mólendistegundum. Ljósar fléttur (Cladonia) eru áberandi í gróðursvipnum. Fremur hallalítið land á veðrasömum svæðum á útkjálkum og til heiða, grjót sést að jafnaði á yfirborði. Land er vel gróið, gróður lágvaxinn, æðplöntuþekja fremur rýr, en mosar ríkjandi í þekju, fléttuþekja er mikil og meiri en í öðrum vistgerðum.
Plöntur
Vistgerðin er frekar rík af æðplöntutegundum og mjög rík af tegundum mosa og fléttna; er ríkust allra vistgerða af fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru krækilyng (Empetrum nigrum), þursaskegg (Kobresia myosuroides) og blávingull (Festuca vivipara). Algengastir mosa eru móasigð (Sanionia uncinata), melagambri (Racomitrium ericoides) og hraungambri (R. lanuginosum) en algengustu fléttur hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula), skarlatbikar (C. borealis), fjallagrös (Cetraria islandica) og broddskilma (Ochrolechia frigida).
Jarðvegur
Áfoksjörð er ríkjandi, en klappar- og sandjörð finnast einnig. Jarðvegur er þurr, miðlungs þykkur, fremur kolefnisrýr en sýrustig í meðallagi.
Fuglar
Fremur rýrt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru heiðlóa (Pluvialis apricaria), spói (Numenius phaeopus), þúfutittlingur (Anthus pratensis) og lóuþræll (Calidris alpina), einnig snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) á hálendi.
Líkar vistgerðir
Starmóavist og lyngmóavist á hálendi.
Útbreiðsla
Finnst á fremur þurrum svæðum á láglendi og til heiða frá Vesturlandi til Austurlands.
Verndargildi
Miðlungs.

