Grasengjavist

L9.5 Grasengjavist

Eunis-flokkun: E1.7224 Icelandic Festuca grasslands.

Lýsing

Deigt, fremur gróskumikið graslendi, vaxið hálíngresi, túnvingli, blávingli og mýrastör og sums staðar allhávöxnum brúskum af loðvíði og gulvíði. Finnst á sendnu framburðarlandi í dalbotnum á láglendi og til heiða og einnig á framræstu landi. Land er hallalítið, mjög vel gróið og gróður fremur hávaxinn. Æðplöntur eru ríkjandi í þekju, mosaþekja er allmikil en lítið er um fléttur.

Plöntur

Vistgerðin er rík af æðplöntutegundum, fátæk af mosum og mjög fátæk af fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna í vistgerðinni eru hálíngresi (Agrostis capillaris), túnvingull (Festuca rubra subsp. richardsonii) og mýrastör (Carex nigra). Algengastir mosa eru engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), tildurmosi (Hylocomium splendens), geirmosi (Calliergonella cuspidata), krónumosi (Climacium dendroides) og móasigð (Sanionia uncinata), en af fléttum finnst helst himnuskóf (Peltigera membranacea).

Jarðvegur

Áfoksjörð er algengust, en einnig finnst lífræn jörð og sandjörð. Jarðvegur er þurr til deigur og allþykkur, fremur rýr af kolefni af graslendi að vera, en sýrustig er í meðallagi.

Fuglar

Meðalríkt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru lóuþræll (Calidris alpina), spói (Numenius phaeopus), hrossagaukur (Gallinago gallinago), þúfutittlingur (Anthus pratensis), stelkur (Tringa totanus) og grágæs (Anser anser).

Líkar vistgerðir

Grashólavist og starungsmýravist.

Útbreiðsla

Vistgerðin finnst á láglendi í öllum landshlutum, síst á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Hún er algengust á víðáttumiklu, uppgrónu framburðarlandi með ám og fljótum og á framræstu landi.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.