Grasvíðiskriðuvist
L3.2 Grasvíðiskriðuvist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. H2.12 Icelandic Salix herbacea screes.


Lýsing
Allbrattar, óstöðugar til fremur stöðugar, basalt- og móbergsskriður. Grófleiki yfirborðs mjög misjafn, frá smágrýti upp í allstórgrýttar urðir. Gróður er mjög lágvaxinn og land lítt gróið, gamburmosar eru ríkjandi.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, frekar snauð af mosum en fremur rík af fléttum. Af æðplöntum er mest af krækilyngi (Empetrum nigrum), holtasóley (Dryas octopetala), ljónslappa (Alchemilla alpina), grasvíði (Salix herbacea) og blóðbergi (Thymus praecox ssp. arcticus). Af mosum eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), holtasóti (Andreaea rupestris), snoðgambri (Racomitrium fasciculare) og melagambri (R. ericoides) algengastir, en af fléttum landfræðiflikra (Rhizocarpon geographicum), hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum), dvergkarta (Tremolecia atrata) og vaxtarga (Lecanora polytropa).
Jarðvegur
Jarðvegur er fremur þunnur. Klapparjörð er ráðandi, einkum í urðum þar sem grjót er sums staðar eina efnið. Í vistgerðinni koma einnig fyrir melajörð og sandjörð. Kolefnisinnihald jarðvegs er fremur lágt en sýrustig í meðallagi.
Fuglar
Strjált fuglalíf, steindepill (Oenanthe oenanthe), snjótittlingur (Plectrophenax nivalis), heiðlóa. Hrafn (Corvus corax), smyrill (Falco colunbarius) og fálki (Falco rusticolus) í klettum.
Líkar vistgerðir
Ljónslappaskriðuvist og urðarskriðuvist.
Útbreiðsla
Finnst í bröttu fjalllendi í öllum landshlutum.
Verndargildi
Lágt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

