Hélumosavist

L5.1 Hélumosavist

Eunis-flokkun: E4.115 Boreal moss snowbed communities.

Lýsing

Allvel gróið land, flatt til hallandi, þurrt til deigt, sums staðar nokkuð grýtt með mikilli lífrænni jarðvegsskán sem að uppistöðu er hélumosi (Anthelia juratzkana). Gróðurþekja er breytileg, á skiptast algróin svæði og berangur. Gróður er mjög lágvaxinn og mótaður af snjóþyngslum. Þekja æðplantna og einkanlega fléttna er lítil en þekja mosans melagambra (Racomitrium ericoides) sums staðar talsverð. Vistgerðin finnst einkum í lægðum í fjalllendi og á áreyrum á snjóþungum svæðum.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntum, mjög rík af mosum og fléttum. Grasvíðir (Salix herbacea), fjallavíðir (S. arctica) og kornsúra (Bistorta vivipara) eru ríkjandi æðplöntur. Algengastir af mosum eru hélumosi (Anthelia juratzkana), Dichodontium pellucidum, Pohlia filum, melagambri (Racomitrium ericoides) og móasigð (Sanionia uncinata), en af fléttum flagbreyskja (Stereocaulon glareosum), fjallaskóf (Peltigera rufescens) og vikurbreyskja (Stereocaulon arcticum).

Jarðvegur

Jarðvegur er í meðallagi þykkur, næringarsnauður og talsvert rakur. Eyrarjörð og áfoksjörð algengastar, en einnig er talsvert um sandjörð og melajörð. Kolefnisinnihald er breytilegt en yfirleitt lágt, en sýrustig fremur hátt.

Fuglar

Fremur rýrt fuglalíf. Einkennisfuglar eru heiðlóa (Pluvialis apricaria) og snjótittlingur (Plectro­phenax nivalis), einnig sandlóa (Charadrius hiaticula), sendlingur (Calidris maritima) og rjúpa (Lagopus mutus).

Líkar vistgerðir

Melagambravist.

Útbreiðsla

Finnst á snjóþungum og rökum svæðum um allt hálendi landsins þar sem hreyfing á yfirborði er lítil.

Verndargildi

Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.