Hengistararflóavist

L8.10 Hengistararflóavist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. D2.2933 Icelandic Carex rari­flora alpine fens.

Lýsing

Algróið, flatt eða hallalítið, mjög mosaríkt votlendi með flóum, tjörnum, mýrablettum og rimum til heiða og fjalla. Við tjarnir og í lægðum er flóagróður, en mólendisgróður á rimum. Gróður fremur lágvaxinn og gróskulítill nema þar sem tjarnastör vex. Mosar eru ríkjandi í þekju og fjölbreytni þeirra mikil. Lítið er af fléttum.

Plöntur

Æðplöntuflóra er frekar rýr, mikið er af mosum en miðlungi af fléttum. Ríkjandi æðplöntur eru hengi­stör (Carex rariflora), mýrastör (C. nigra), klófífa (Eriophorum angustifolium), fjallavíðir (Salix arctica) og hálmgresi (Calamagrostis stricta). Algengustu mosar eru móasigð (Sanionia uncinata), roða­kló (Sarmentypnum sarmentosum), mýrahnúði (Oncophorus wahlenbergii), mýrakrækja (Scorpidium revolvens) og bleytuburi (Sphagnum teres).

Jarðvegur

Fremur þykk lífræn jörð, kolefnisinnihald er í meðal­lagi en sýrustig fremur lágt.

Fuglar

Fuglalíf er mjög fjölbreytt, mest ber á heiðlóu (Pluvialis apricaria), lóuþræl (Calidris alpina) og þúfutittlingi (Anthus pratensis). Andfuglar eru einnig mjög áberandi, einkum álft (Cygnus cygnus) og heiðagæs (Anser barachyrhynchus) en einnig ýmsar andategundir.

Líkar vistgerðir

Rústamýravist og sandmýravist.

Útbreiðsla

Finnst á votlendissvæðum til heiða og fjalla, einkum í Þjórsárverum, Guðlaugstungum, Vesturöræfum og Brúardölum og út til stranda norðaustanlands.

Verndargildi

Hátt.