Hraungambravist
L5.3 Hraungambravist
Eunis-flokkun: E4.25 Moss and lichen fjell fields.
Lýsing
Vistgerðin einkennist af mikilli þekju hraungambra. Hún finnst á hæðarbungum, bæði á heiðum uppi og á láglendi, einkum þar sem snjólétt er. Hún er yfirleitt allvel gróin og er heildarþekja mosa mikil. Þekja æðplantna er talsverð og fléttuþekja veruleg, einkum þekja hreindýrakróka sem víða setja svip á vistgerðina. Land er sums staðar talsvert grýtt og stendur grjótið upp úr mosanum. Gróður er að jafnaði mjög lágvaxinn.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, frekar rýr af mosum en miðlungi rík af fléttutegundum. Af æðplöntum er mest af krækilyngi (Empetrum nigrum), stinnstör (Carex bigelowii) og grasvíði (Salix herbacea). Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), holtasóti (Andreaea rupestris), tildurmosi (Hylocomium splendens), melagambri (Racomitrium ericoides) og móasigð (Sanionia uncinata), en algengustu fléttur eru fjallagrös (Cetraria islandica), hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula), fölvakarta (Porpidia melinodes), broddskilma (Ochrolechia frigida) og hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum).
Jarðvegur
Áfoksjörð er ríkjandi en klapparjörð og melajörð finnast í litlum mæli. Jarðvegur er yfirleitt grunnur og fremur næringarsnauður. Kolefnisinnihald og sýrustig er í meðallagi.
Fuglar
Nokkurt fuglalíf, heiðlóa (Pluvialis apricaria) og spói (Numenius phaeopus) algengust.
Líkar vistgerðir
Mosahraunavist og flagmóavist.
Útbreiðsla
Finnst einkum á úrkomusömum en fremur snjóléttum svæðum, á vesturhluta landsins og á Austfjörðum.
Verndargildi
Lágt.