Hrossanálarvist
L8.4 Hrossanálarvist
Eunis-flokkun: E3.416 Juncus arcticus meadows.


Lýsing
Flatt, deigt og sendið, oft mjög víðáttumikið, framburðarland með fjölbreyttum gróðri, þar sem hrossanál setur svip á gróðurfar vegna hæðar sinnar en er þó ekki ríkjandi tegund. Land er vel gróið og gróður í meðallagi hávaxinn, mosar eru áberandi í sverði en mjög lítið er um fléttur.
Plöntur
Vistgerðin er frekar rík af æðplöntutegundum, miðlungi af mosum en fremur fátæk af fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru mýrastör (Carex nigra), krækilyng (Empetrum nigrum) og fjallavíðir (Salix arctica). Algengustu tegundir mosa eru móasigð (Sanionia uncinata), tildurmosi (Hylocomium splendens), melagambri (Racomitrium ericoides) og engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), en af fléttum eru himnuskóf (Peltigera membranacea), dílaskóf (Peltigera leucophlebia) og álfabikar (Cladonia chlorophaea) algengastar.
Jarðvegur
Lífræn jörð er algengust, en einnig eru sandjörð og áfoksjörð algengar. Jarðvegur er í meðallagi þykkur, fremur kolefnissnauður, sýrustig er í meðallagi.
Fuglar
Ríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru spói (Numenius phaeopus), lóuþræll (Calidris alpina), þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago gallinago) og grágæs (Anser anser).
Líkar vistgerðir
Runnamýravist á hálendi og víðimóavist.
Útbreiðsla
Vistgerðin finnst í öllum landshlutum, en mest er um hana á uppgrónum framburðar- og sandsléttum með ám og ströndum þar sem land er deigt, svo sem í Rangárvallasýslu, Skaftafellssýslum, á Úthéraði og í Kelduhverfi.
Verndargildi
Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

