Landmelhólavist
L1.6 Landmelhólavist
Eunis-flokkun: H5.341 Icelandic inland dunes


Lýsing
Hallalítil og þurrlend sandsvæði inn til landsins með 1–3 m háum melgresishólum. Milli hólanna eru melar eða sandur. Yfirborð er mjög óstöðugt því sandur blæs frá einum stað og safnast fyrir á öðrum í skjóli við plöntur. Gróður fremur gisinn og mótaður af sandfoki. Æðplöntur, einkum melgresi og túnvingull, eru algjörlega ríkjandi. Mosar og fléttur finnast varla.
Plöntur
Æðplöntu- og fléttutegundir eru fremur fáar en mosategundir mjög fáar. Af æðplöntum er langmest af melgresi (Leymus arenarius) og túnvingli (Festuca rubra subsp. richardsonii). Af mosum finnast helst hlaðmosi (Ceratodon purpureus) og gráhaddur (Polytrichum piliferum) en af fléttum vaxtarga (Lecanora polytropa), grásnuðra (Lecidea lapicida) og dvergkarta (Tremolecia atrata).
Jarðvegur
Þykk sandjörð og melajörð. Kolefnisinnihald jarðvegs er mjög lágt, en sýrustig frekar hátt.
Fuglar
Fremur fábreytt fuglalíf og strjált varp, þúfutittlingur (Anthus pratensis) og heiðlóa (Pluvialis apricaria) algengust, heiðagæs (Anser barachyrhynchus) verpur einnig sums staðar í melhólum.
Líkar vistgerðir
Útbreiðsla
Algengust á sandfokssvæðum norðaustanlands með Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljóti, og sunnanlands með Tungnaá og Þjórsá, og austan Mýrdalsjökuls.
Verndargildi
Lágt.

