Ljónslappaskriðuvist
L3.3 Ljónslappaskriðuvist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. H2.11 Icelandic Alchemilla screes.


Lýsing
Brattar, mjög óstöðugar en misgrýttar basalt-, móbergs- og líparítskriður. Heildargróðurþekja er mjög lítil og að jafnaði minni en í öðrum skriðuvistgerðum og í vistgerðum almennt. Gróður er mjög lágvaxinn, æðplöntur eru ráðandi en lítið er um mosa og fléttur vegna mikillar hreyfingar undirlags. Gróðurbletti og einhverja grósku er helst að finna á stórgrýti og jarðföstum klettum þar sem hlé er fyrir grjótskriði.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af tegundum æðplantna en fremur fátæk af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mest um ljónslappa (Alchemilla alpina), blóðberg (Thymus praecox ssp. arcticus) og túnvingul (Festuca rubra subsp. richardsonii), en af mosum hraungambra (Racomitrium lanuginosum) og melagambra (Racomitrium ericoides). Algengustu fléttur eru landfræðiflikra (Rhizocarpon geographicum), vaxtarga (Lecanora polytropa) og dvergkarta (Tremolecia atrata).
Jarðvegur
Jarðvegur er fremur grunnur, grófur og lítt rakaheldinn. Klapparjörð er ríkjandi en melajörð og sandjörð finnast einnig í litlum mæli. Kolefnisinnihald er mjög lágt en sýrustig fremur hátt.
Fuglar
Strjált fuglalíf, steindepill (Oenanthe oenanthe), snjótittlingur (Plectrophenax nivalis), heiðlóa (Pluvialis apricaria). Hrafn (Corvus corax), smyrill (Falco colunbarius) og fálki (Falco rusticolus) í klettum.
Líkar vistgerðir
Grasvíðiskriðuvist og urðarskriðuvist.
Útbreiðsla
Finnst í bröttu fjalllendi í öllum landshlutum.
Verndargildi
Lágt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

