Lynghraunavist

L6.4 Lynghraunavist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. E4.243 Icelandic lava field shrub heaths.

Lýsing

Allvel gróin hraun frá nútíma, yfirleitt hallalítil apal- eða helluhraun. Allmikil þekja æðplantna, einkum lyngtegunda, og mosa (hraungambra) og fléttna. Stöðugleiki yfirborðs er misjafn, gróðurþekja er breytileg og sum staðar eru rofsár áberandi. Gróður er lágvaxinn.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af tegundum æðplantna, mjög rík af fléttum en fátæk af mosum. Af æðplöntum ríkja krækilyng (Empetrum nigrum), holtasóley (Dryas octopetala) og beitilyng (Calluna vulgaris). Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), holtasóti (Andreaea rupestris), grákólfur (Gymnomitrion corallioides) og fjallhaddur (Polytrichastrum alpinum) en algengustu fléttur eru hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula), landfræði­flikra (Rhizocarpon geographicum), fjallagrös (Cetraria islandica), fölvakarta (Porpidia melinodes) og geitanafli (Umbilicaria proboscidea).

Jarðvegur

Jarðvegur er mjög grunnur, áfoksjörð í lautum en klapparjörð á bungum og hraunhólum. Kolefnisinnihald er allhátt, einkum miðað við aðrar hraunavistgerðir, en sýrustig er frekar hátt.

Fuglar

Nokkurt fuglalíf, heiðlóa (Pluvialis apricaria), spói (Numenius phaeopus), þúfutittlingur (Anthus pratensis), steindepill (Oenanthe oenanthe) og rjúpa (Lagopus mutus).

Líkar vistgerðir

Mosahraunavist.

Útbreiðsla

Vistgerðin finnst á eldri hraunum þar sem jarðvegur hefur þykknað vegna áfoks og framvindu gróðurs. Algengust á Reykjanesskaga, Snæfellsnesi og Norðausturlandi.

Verndargildi

Miðlungs.