Lyngmóavist á hálendi
L10.7 Lyngmóavist á hálendi
Eunis-flokkun: F2.112 Oroboreal moss-dwarf willow snowbed communities.


Lýsing
Allvel grónir, þurrir til deigir, mosaríkir en gróskulitlir lyng- og víðimóar á hálendi. Vistgerðin finnst á flötu til hallandi landi í giljóttum hlíðum, sem eykur á fjölbreytni. Gróður er lágvaxinn, þekja æðplantna og mosa er áþekk en fléttna fremur lítil. Yfirborð er allvíða rofið og frosttíglar í yfirborði.
Plöntur
Mjög ríkuleg flóra af æðplöntum, mosum og fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru krækilyng (Empetrum nigrum), kornsúra (Bistorta vivipara), túnvingull (Festuca rubra subsp. richardsonii), grasvíðir (Salix herbacea) og fjallavíðir (S. arctica). Algengastir mosa eru hélumosi (Anthelia juratzkana), melagambri (Racomitrium ericoides), móasigð (Sanionia uncinata), hýmosi (Blepharostoma trichophyllum) og heiðanaddur (Nardia geoscyphus) en algengustu fléttur eru fjallabikar (Cladonia stricta), torfmæra (Baeomyces rufus), fjallaskóf (Peltigera rufescens), flaggrýta (Solorina bispora), grábreyskja (Stereocaulon alpinum) og vikurbreyskja (S. arcticum).
Jarðvegur
Áfoksjörð er ríkjandi en melajörð finnst einnig, jarðvegur fremur þykkur, kolefnisinnihald fremur lágt en sýrustig í meðallagi.
Fuglar
Allríkulegt fuglalíf, helstu varpfuglar eru heiðlóa (Pluvialis apricaria), þúfutittlingur (Anthus pratensis) og heiðagæs (Anser barachyrhynchus).
Líkar vistgerðir
Útbreiðsla
Vistgerðin er algengust á norður- og norðausturhluta landsins.
Verndargildi
Hátt.


Opna í kortasjá – Open in map viewer
Melar og móar – Fjallað er um vistgerðirnar lyngmóavist, sem tilheyrir mólendi, og grasmelavist, sem tilheyrir mela- og sandlendi (sýnt í Landanum á RÚV 4.11.2018).