Lyngskógavist

L11.2 Lyngskógavist

Eunis-flokkun: G1.91713 Icelandic bog bilberry-hairgrass birch woods.

Lýsing

Allhávaxnir birkiskógar (hæstu tré >8 m), með bláberjalyng og bugðupunt ríkjandi á skógarbotni, á fremur þurru, hallandi landi, á bungum og í neðanverðum hlíðum. Yfirborð er óslétt og oft nokkuð mishæðótt. Gróðurþekja er mjög þétt og lagskipt, birkikróna er nokkuð samfelld, þekja æðplantna á skógarbotni er mikil, mosar eru þar þéttir en lítið um fléttur. Grjót eða klappir eru á stöku stað.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, fremur fátæk af mosa- og fléttutegundum á skógar­botni. Birki (Betula pubescens) er ríkjandi tegund, en í undirgróðri ber mest á lyngtegundum, grösum og mosum. Ríkjandi tegundir æðplantna í undirgróðri eru bláberjalyng (Vaccinium uli­ginosum), bugðupuntur (Deschampsia flexuosa), aðalbláberjalyng (Vaccinium myrtillus), hrútaberjalyng (Rubus saxatilis) og krækilyng (Empetrum nigrum). Ríkjandi mosategund er tildurmosi (Hylocomium splendens) en næstir honum koma runnaskraut (Rhytidiadelphus triquetrus), engjaskraut (R. squarrosus), móasigð (Sanionia uncinata) og móabrúskur (Dicranum scoparium).

Jarðvegur

Áfoksjörð er ríkjandi jarðvegsgerð og er jarðvegur miðlungi þykkur. Kolefnismagn og sýrustig er í meðallagi.

Fuglar

Ríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru skógarþröstur (Turdus iliacus), hrossagaukur (Gallinago gallinago), auðnutittlingur (Carduelis flammea), þúfutittlingur (Anthus pratensis) og músarrindill (Troglodytes troglodytes).

Líkar vistgerðir

Blómskógavist og kjarrskógavist.

Útbreiðsla

Finnst á láglendi í öllum landshlutum, útbreiddust á þurrum svæðum á Norður- og Austurlandi.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.