Melagambravist
L5.2 Melagambravist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. E4.26 Icelandic Racomitrium ericoides heath.


Lýsing
Allvel til fullgróið moslendi í hlíðum, brekkum og á öldóttu landi á úrkomusömum eða rökum svæðum til fjalla. Gróður einkennist af mosanum melagambra (Racomitrium ericoides) sem myndar slitrótt til samfellt en þunnt gróðurlag. Þekja lífrænnar jarðvegsskánar er einnig mikil. Yfirborð er talsvert grýtt en undirlag misjafnt; melur, sandur, vikur og móberg. Gróður er yfirleitt mjög lágvaxinn og gróskulítill.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntum, mjög rík af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mest um grasvíði (Salix herbacea), kornsúru (Bistorta vivipara) og lambagras (Silene acaulis), en algengastir mosa eru melagambri (Racomitrium ericoides), hélumosi (Anthelia juratzkana), heiðarindill (Dicranella subulata) og kármosi (Dicranoweisia crispula) og algengustu fléttur eru skeljaskóf (Placopsis gelida), vikurbreyskja (Stereocaulon arcticum), flekkugláma (Amygdalaria consentiens) og ryðkarta (Porpidia flavicunda).
Jarðvegur
Jarðvegur er í meðallagi þykkur, áfoksjörð og melajörð eru ráðandi en sandjörð og klapparjörð eru einnig talsvert algengar jarðvegsgerðir. Kolefnisinnihald er mjög lágt en sýrustig fremur hátt.
Fuglar
Strjált fuglalíf, snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) og heiðlóa (Pluvialis apricaria) algengust.
Líkar vistgerðir
Hélumosavist, sanda- og vikravist og víðimelavist.
Útbreiðsla
Útbreidd á úrkomusömum svæðum á hálendi, einkum um sunnan- og suðaustanvert landið.
Verndargildi
Miðlungs.

