Moldavist

L2.1 Moldavist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. H5.7 Icelandic exposed andic soils.

Lýsing

Lítt til allvel gróin rofsvæði og rofjaðrar, rofabörð og moldir, sem ýmist eru að blása upp eða gróa á ný eftir rof. Vistgerðin myndar oftast fremur mjótt belti milli gamalgróins þurrlendis og örfoka lands eins og mela og grjóts. Næst rofabörðum er yfirborð þurrt, óstöðugt og mjög gróðurlítið. Yfirborð er yfirleitt slétt en halli misjafn. Gróðurþekja er mjög breytileg. Gróðurinn, sem samanstendur að langmestu leyti af æðplöntum, er undir miklu álagi af völdum áfoks og svörfunar. Mosa- og fléttuþekja er óveruleg.

Plöntur

Vistgerðin er fátæk af tegundum, einkanlega af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mest um klóelftingu (Equisetum arvense) og týtulíngresi (Agrostis vinealis). Af mosum finnast helst melagambri (Racomitrium ericoides), hlaðmosi (Ceratodon purpureus), melhöttur (Pogonatum urnigerum) og Pohlia filum. Engin fléttutegund telst algeng.

Jarðvegur

Jarðvegur er þykkur, mest áfoksjörð og lífræn jörð, oft með þykkum öskulögum, þurr til deigur. Kolefnismagn er frekar lágt en breytilegt eftir stöðum en sýrustig frekar hátt.

Fuglar

Nánast ekkert fuglalíf, helst von á stöku mófuglum í ætisleit.

Líkar vistgerðir

Engar.

Útbreiðsla

Finnst á rofsvæðum, algengust á gosbelti landsins, einkum á miðhálendinu og í hálendisbrúninni.

Verndargildi

Lágt.