Mosamelavist
L1.3 Mosamelavist
Eunis-flokkun: E4.21 Oroboreal Carex bigelowii-Racomitrium mossheaths


Lýsing
Hálfgrónir, grýttir, hallandi melar í hlíðarbrúnum, á áveðra rindum og bungum; finnst frá láglendi og til fjalla þar sem úrkoma er ríkuleg en snjóþyngsli lítil. Vistgerðin einkennist af allmikilli þekju mosanna hraungambra og melagambra og er jafnframt best gróna melavistgerð landsins. Þekjan er þó slitrótt þar sem skiptast á mosabreiður, melaflákar og klappir. Æðplöntuþekja er nokkur og fléttur eru talsvert áberandi. Gróður er að jafnaði mjög lágvaxinn.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, fremur fátæk af mosum en allrík af fléttum. Af æðplöntum er mest af krækilyngi (Empetrum nigrum), grasvíði (Salix herbacea) og blóðbergi (Thymus praecox sbsp. arcticus). Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), melagambri (Racomitrium ericoides), snoðgambri (R. fasciculare) og holtasóti (Andreaea rupestris) en algengustu fléttur eru skeljaskóf (Placopsis gelida), fjallagrös (Cetraria islandica), fölvakarta (Porpidia melinodes) og hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum).
Jarðvegur
Jarðvegur er fremur grunnur; melajörð og klapparjörð eru ríkjandi en áfoksjörð finnst í litlum mæli. Jarðvegur er fremur næringarsnauður en magn kolefnis er að jafnaði hærra en í öðrum melum en sýrustig lægra.
Fuglar
Nokkurt fuglalíf og varp; heiðlóa (Pluvialis apricaria), spói (Numenius phaeopus), þúfutittlingur (Anthus pratensis) og rjúpa (Lagopus mutus).
Líkar vistgerðir
Mosahraunavist, grasvíðiskriðuvist og hraungambravist.
Útbreiðsla
Finnst aðallega til heiða og fjalla á blágrýtissvæðum á Vesturlandi, Vestfjörðum og á Austurlandi. Hún liggur yfirleitt ofar í landi en hraungambravist og tekur við af henni.
Verndargildi
Lágt.

