Mýrahveravist
L12.1 Mýrahveravist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. C2.1431 Geothermal wetlands.


Lýsing
Gróskumikið deig- og mýrlendi við heitar uppsprettur, volgrur, laugar og vatnshveri. Þurrari bletti er einnig að finna inn á milli. Land er flatt eða lítið eitt hallandi. Tegundasamsetning getur verið nokkuð breytileg. Æðplöntur eru mest áberandi í þekju en mosar þar sem jarðvegshiti er einna hæstur.
Plöntur
Fjöldi tegunda er allmikill. Mýrastör (Carex nigra) og skriðlíngresi (Agrostis stolonifera) eru ríkjandi æðplöntutegundir. Laugasef (Juncus articulatus) og mýradúnurt (Epilobium palustre) eru algengar þar sem raki er nægur en einnig koma fyrir hitakæru tegundirnar lækjasef (Juncus bufonius) og laugabrúða (Callitriche stagnalis). Þar sem er eilítið þurrara eru tegundir eins og brennisóley (Ranunculus acris) og tágamura (Potentilla anserina) og hitakæru tegundirnar blóðberg (Thymus praecox subsp. arcticus) og blákolla (Prunella vulgaris). Algengustu jarðhitategundir æðplantna eru vatnsnafli (Hydrocotyle vulgaris) og laugadepla (Veronica anagallis-aquatica). Þar sem vatnsnafli vex er hann mjög áberandi í þekju. Mosaflóran endurspeglar mikinn jarðvegsraka og einna algengastir eru geirmosi (Calliergonella cuspidata) og engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus) ásamt kelduhnokka (Bryum pseudotriquetrum). Fléttur finnast þar sem þurrara er og algengastar eru landfræðiflikra (Rhizocarpon geographicum), engjaskóf (Peltigera canina) og vaxtarga (Lecanora polytropa).
Jarðvegur
Oftast lífrænn og þykkur en áfoksjarðvegur finnst einnig. Ummyndun jarðvegs vegna hita er víða sýnileg.
Jarðhiti á 10 cm dýpi
Á bilinu 15–55°C; meðaltal 28°C (n=153).
Fuglar
Urtönd, stokkönd, hrossagaukur og músarrindill á vetrum.
Útbreiðsla
Finnst á jarðhitasvæðum í öllum landshlutum en er algengust á láglendi. Hún er einkum á lághitasvæðum.
Verndargildi
Mjög hátt.

Jarðhitategundir æðplantna – Geothermal vascular plant species within the habitat type | |
---|---|
Flóajurt | Persicaria maculosa |
Tunguskollakambur | Blechnum spicant var. fallax |
Grámygla | Gnaphalium uliginosum |
Vatnsnafli | Hydrocotyle vulgaris |
Laugadepla | Veronica anagallis-aquatica |
Vatnsögn | Tillaea aquatica |
Naðurtunga | Ophioglossum azoricum |
