Rekjuvist

L8.2 Rekjuvist

Eunis-flokkun: D4.1J Icelandic stiff sedge fens.

Lýsing

Allvel gróið, rakt og hallalítið, mosaríkt land til heiða og fjalla, oft með smálækjum og bleytum, mýragróður er í lægðum en mólendisplöntur á þurrari rimum og þúfum. Nokkurt rof getur verið í yfirborði og leir og sandur eftir leysingar. Gróður er lágvaxinn og frekar gróskulítill, æðplöntuþekja er gisin, en mosar allþéttir, mjög lítið er um fléttur. Lífræn jarðvegsskán er allmikil.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntum, mjög rík af mosum, og fremur rík af fléttum. Af æðplöntutegundum eru fjallavíðir (Salix arctica), grasvíðir (S. herbacea), hálmgresi (Calamagrostis stricta) og kornsúra (Bistorta vivipara) algengastar, en af mosum heiðahéla (Anthelia juratzkana), móasigð (Sanionia uncinata), hýmosi (Blepharostoma tricho­phyllum), heiðanaddur (Nardia geoscyphus), melagambri (Racomitrium ericoides) og roðakló (Sarmentypnum sarmentosum). Af fléttum finnast helst flagbreyskja (Stereocaulon glareosum), grábreyskja (S. alpinum), fjallabikar (Cladonia stricta), fjallaskóf (Peltigera rufescens) og flaggrýta (Solorina bispora).

Jarðvegur

Jarðvegur er allþykkur, mest lífræn jörð og áfoksjörð en sandjörð og eyrarjörð finnast einnig. Kolefnisinnihald er fremur lágt og sýrustig fremur hátt.

Fuglar

Töluvert fuglalíf, algengustu varpfuglar eru heiðlóa (Pluvialis apricaria), lóuþræll (Calidris alpina), heiðagæs (Anser barachyrhynchus) og sendlingur (Calidris maritima).

Líkar vistgerðir

Starmóavist og rústamýravist.

Útbreiðsla

Vistgerðin er fremur algeng á miðhálendinu, utan mestu sanda-, vikra- og melasvæða á gosbeltinu.Útbreiddust er hún austanlands og sunnan Hofsjökuls og Langjökuls.

Verndargildi

Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.