Rimamýravist
L8.7 Rimamýravist
Eunis-flokkun: D3.2 Aapa mires.


Lýsing
Víðáttumiklar mýrar til heiða með áberandi mynstri langra þúfnagarða (rima) og forblautra flóalægða á milli sem liggja þvert á eða í lítilsháttar sveig undan landhalla. Pollar og smátjarnir í lægðum. Vatn á að mestu uppruna af hærra landi í kring, sígur fram undan halla, er fremur steinefnaríkt og eru mýrarnar því nokkuð frjósamar. Á rimum vex mó- og deiglendisgróður en flóagróður í lægðum. Land er mjög vel gróið og gróður hávaxinn. Æðplöntuþekja er fremur gisin, mosi mikill í sverði og ríkjandi, einkanlega á rimum, mjög lítið er um fléttur.
Plöntur
Vistgerðin er frekar fátæk af tegundum æðplantna, frekar rík af mosategundum en fléttutegundir eru fáar. Ríkjandi tegundir æðplantna í vistgerðinni eru tjarnastör (Carex rostrata), fjalldrapi (Betula nana), bláberjalyng (Vaccinium uliginosum), vetrarkvíðastör (C. chordorrhiza), mýrastör (C. nigra) og hengistör (C. rariflora). Á rimum er allmikil þekja af svarðmosa (Sphagnum) og hraungambra í þúfum, brúnmosar eru ríkjandi í lægðum. Algengustu mosar eru hins vegar skjallmosi (Pseudobryum cinclidioides), móasigð (Sanionia uncinata), roðakló (Sarmentypnum sarmentosum) og mýrakrækja (Scorpidium revolvens), en af fléttum finnast helst fjallagrös (Cetraria islandica), hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula) og broddskilma (Ochrolechia frigida).
Jarðvegur
Lífræn jörð er einráð. Jarðvegur er mjög þykkur, frekar ríkur af kolefni og sýrustig fremur lágt.
Fuglar
Allríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru spói (Numenius phaeopus), lóuþræll (Calidris alpina), heiðlóa (Pluvialis apricaria), óðinshani (Phalaropus lobatus), álft (Cygnus cygnus) og heiðagæs (Anser barachyrhynchus).
Líkar vistgerðir
Brokflóavist, runnamýravist á láglendi og tjarnastararflóavist.
Útbreiðsla
Rimamýravist er mjög fágæt og staðbundin. Rimamýrar á landinu eru Lauffellsmýrar á Síðumannaafrétti, Miklumýrar á Hrunamannaafrétti og mýrar á Fljótsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu.
Verndargildi
Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.


Opna í kortasjá – Open in map viewer
Mýri er ekki bara mýri – Mismunandi flokkun votlendis útskýrð og fjallað sérstaklega um dýjavist og rimamýravist (sýnt í Landanum á RÚV 21.10.2018).