Runnamýravist á hálendi
L8.5 Runnamýravist á hálendi
Eunis-flokkun: D4.162 Boreal black sedge-brown moss fens.


Lýsing
Algrónar, flatar eða lítið eitt hallandi, deigar til blautar, mosaríkar og þýfðar mýrar með runnagróðri til heiða og í neðanverðu hálendinu. Þekja æðplantna og mosa er mikil en fléttna lítil. Gróður allhávaxinn og gróskumikill. Yfirborð fremur einsleitt, á skiptast blautar lægðir með mýrastör og vetrarkvíðastör og þurrari svæði vaxin bláberjalyngi, fjalldrapa og fleiri runnum. Lítið er um tjarnir og polla.
Plöntur
Vistgerðin er frekar rík af tegundum æðplantna, mjög rík af mosum en fléttutegundir eru í meðallagi. Af æðplöntum eru bláberjalyng (Vaccinium uliginosum), fjalldrapi (Betula nana), mýrastör (Carex nigra) og vetrarkvíðastör (C. chordorrhiza) ríkjandi, fjallavíðir (Salix arctica) er einnig áberandi. Algengustu mosar eru móasigð (Sanionia uncinata), lémosi (Tomentypnum nitens), bleikjukollur (Aulacomnium palustre) og vætularfi (Schljakovianthus quadrilobus).
Jarðvegur
Mjög þykkur jarðvegur, mest lífræn jörð en áfoksjörð kemur einnig fyrir. Kolefnisinnihald og sýrustig er í meðallagi.
Fuglar
Nokkurt fuglalíf, þúfutittlingur (Anthus pratensis) er einkennistegund en lóuþræll (Calidris alpina) og heiðlóa (Pluvialis apricaria) eru einnig áberandi, auk heiðagæsar (Anser barachyrhynchus).
Líkar vistgerðir
Hrossanálarvist, víðimóavist og runnamýravist á láglendi.
Útbreiðsla
Vistgerðin er fremur sjaldgæf á miðhálendinu, einna mest er um hana á votlendum svæðum á norðaustanverðu landinu.
Verndargildi
Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

