Sanda- og vikravist

L1.5 Sanda- og vikravist

Eunis-flokkun: H6.25 Volcanic ash and lapilli fields

Lýsing

Gegndræpir vikrar og vikurblandaðir sandar og melar í brekkurótum, hæðum og í fjallshlíðum og sums staðar á flatlendi. Yfirborð er mjög óstöðugt og einkennist af misgrófum vikri og vikursandi sem feykist til í veðrum. Land sums staðar allgrýtt á blettum. Land er lítið gróið og mosar ríkjandi. Gróður er mjög lágvaxinn.

Plöntur

Vistgerðin er fátæk af æðplöntutegundum, frekar rík af mosum en miðlungi rík af fléttum. Af æðplöntum er mest um fjallapunt (Deschampsia alpina), grasvíði (Salix herbacea) og melablóm (Arabidopsis petraea). Algengastir mosa eru melagambri (Racomitrium ericoides), rindatoti (Arctoa fulvella) og kármosi (Dicranoweisia crispula) en algengustu  fléttur eru skeljaskóf (Placopsis gelida), flekkugláma (Amygdalaria consentiens), felumara (Ionaspis odora) og vikurbreyskja (Stereocaulon arcticum).

Jarðvegur

Jarðvegsþykkt í meðallagi, sandjörð og melajörð ríkjandi. Kolefnisinnihald er mjög lágt en sýrustig frekar hátt.

Fuglar

Sand- og vikravist er mjög rýr og líklegt er að þeir fuglar sem skráðir voru þar hafi í raun orpið í öðrum vistgerðum, í jöðrum vistgerðarinnar og á blettum inni í henni.

Líkar vistgerðir

Melagambravist.

Útbreiðsla

Finnst einkum á eldvirkum svæðum þar sem öskugos eru tíð. Útbreiddust við Heklu, Vatnaöldur, Lakagíga, Kötlu og Öskju.

Verndargildi

Lágt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.