Sandmýravist
L8.3 Sandmýravist
Eunis-flokkun: D4.261 Cottonsedge marsh-fens.


Lýsing
Flatt, allvel gróið, sendið, rýrt votlendi og deiglendi meðfram ám og í lægðum þar sem vatn flæðir yfir í leysingum og sandur, vikur og fínni áfoksefni berast að og safnast fyrir í jarðvegi. Yfirborð er yfirleitt slétt og tjarnir setja sums staðar svip á vistgerðina. Gróður er í meðallagi hávaxinn, æðplöntur fremur strjálar, en víða talsvert mosaríkur.
Plöntur
Vistgerðin er fremur fátæk af æðplöntutegundum, fremur rík af mosum en fléttutegundir mjög fáar. Ríkjandi æðplöntur eru hálmgresi (Calamagrostis stricta), klófífa (Eriophorum angustifolium) og fjallavíðir (Salix arctica) sem gefa vistgerðinni svip. Algengastir mosa eru móasigð (Sanionia uncinata), dýjahnappur (Philonotis fontana), fjallhaddur (Polytrichastrum alpinum), melagambri (Racomitrium ericoides), lindakló (Sarmentypnum exannulatum), roðakló (S. sarmentosum) og seilmosi (Straminergon stramineum) en af fléttum finnst helst engjaskóf (Peltigera canina) og flagbreyskja (Stereocaulon glareosum).
Jarðvegur
Er allþykkur, lífræn jörð og sandjörð algengastar, áfoksjörð finnst einnig. Kolefnisinnihald er mjög lágt af mýravist að vera en sýrustig er hærra en í öðrum votlendisvistgerðum.
Fuglar
Fremur fábreytt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru lóuþræll (Calidris alpina), heiðlóa (Pluvialis apricaria), þúfutittlingur (Anthus pratensis) og snjótittlingur (Plectrophenax nivalis). Beitiland heiðagæsar (Anser barachyrhynchus).
Líkar vistgerðir
Rústamýravist og hengistararflóavist.
Útbreiðsla
Lítil og dreifð hálendisvistgerð sem er algengust á gosbeltinu, umhverfis Hofsjökul og norðan Mýrdalsjökuls.
Verndargildi
Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

