Sjávarkletta- og eyjavist
L7.7 Sjávarkletta- og eyjavist
Eunis-flokkun: B3.31 Atlantic sea-cliff communities.


Lýsing
Mjög gróskumikið gras- og blómlendi í fuglabjörgum og eyjum undir miklum áhrifum af sjávarseltu og áburði frá sjófugli. Gróður breytilegur eftir vaxtarstöðum; skarfakál, holurt, o.fl. tegundir eru algengar í björgum, en hreinna graslendi með túnvingli, vallarsveifgrasi og blómjurtum á sléttlendi ofan fjöru og brúna. Halli allt frá sléttlendi til þverhnípis. Gróður er allhávaxinn, æðplöntur ríkjandi en lítið um mosa og fléttur.
Plöntur
Fjöldi tegunda æðplantna, mosa og fléttna er undir meðallagi. Ríkjandi tegundir eru ætihvönn (Angelica archangelica), melgresi (Leymus arenarius) og bugðupuntur (Deschampsia flexuosa). Af mosum eru algengastir engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), brekkusigð (Sanionia orthothecioides) og ögurmosi (Ulota phyllantha) en af fléttum finnast helst lundatarga (Lecanora straminea) og klappagráma (Physcia caesia).
Jarðvegur
Áfoksjörð er ríkjandi, jarðvegur er fremur grunnur, mjög ríkur af kolefni og sýrustig fremur lágt.
Fuglar
Mjög ríkulegt fuglalíf, sjófuglategundir algengastar, einnig landfuglar eins og snjótittlingur (Plectrophenax nivalis), maríuerla (Motacilla alba), hrafn (Corvus corax) og stelkur (Tringa totanus), hrossagaukur (Gallinago gallinago) og haförn (Haliaeetus albicilla) í eyjum og hólmum.
Líkar vistgerðir
Blómgresisvist og língresis- og vingulvist.
Útbreiðsla
Finnst í öllum landshlutum þar sem sjófuglabyggðir eru í strandbjörgum, eyjum og hólmum. Mest í Vestmannaeyjum, á Reykjanesskaga, við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og með norður- og austurströnd landsins.
Verndargildi
Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

