Starmóavist
L10.3 Starmóavist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. E4.29 Icelandic Carex bigelowii heaths.


Lýsing
Þurrt til deigt, fremur hallalítið, grasleitt og mosaríkt mólendi til heiða og fjalla, vaxið stinnastör, grasvíði og fleiri mólendistegundum. Vistgerðin finnst einkum á mörkum votlendis og þurrara mólendis, meðfram ám og lækjarfarvegum og á milli votlendis og mela. Hún er vel gróin, gróður lágvaxinn, mosar eru ríkjandi, æðplöntuþekja talsverð og fléttuþekja nokkur.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum en mjög rík af mosum og fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna í vistgerðinni eru stinnastör (Carex bigelowii) og grasvíðir (Salix herbacea). Algengastir mosa eru móasigð (Sanionia uncinata), heiðahéla (Anthelia juratzkana) og melagambri (Racomitrium ericoides) en algengustu fléttur eru grábreyskja (Stereocaulon alpinum), hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula), fjallabikar (C. stricta), broddskilma (Ochrolechia frigida), fjallaskóf (Peltigera rufescens) og fjallagrös (Cetraria islandica).
Jarðvegur
Áfoksjörð er ríkjandi en einnig finnst sand-, klappar- og melajörð. Jarðvegur er þurr eða deigur, miðlungs þykkur, miðlungi ríkur af kolefni. Sýrustig er í meðallagi.
Fuglar
Frekar rýrt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru heiðlóa (Pluvialis apricaria), lóuþræll (Calidris alpina) og þúfutittlingur (Anthus pratensis).
Líkar vistgerðir
Lyngmóavist á hálendi, fléttumóavist og rekjuvist.
Útbreiðsla
Algeng og útbreidd vistgerð sem finnst á fremur snjóþungum stöðum til heiða og fjalla. Vistgerðin er algengust um vestan-, norðan- og austanvert landið.
Verndargildi
Miðlungs.

