Starungsflóavist
L8.12 Starungsflóavist
Eunis-flokkun: D4.163 Icelandic black sedge-brown moss fens.


Lýsing
Flatt og slétt, frjósamt mýrlendi, deigt til forblautt, vaxið mýrastör og fleiri votlendistegundum, í dalbotnum og á flóðasléttum vatnsfalla nærri sjó. Vatn stendur hátt, er á hreyfingu og steinefnaríkt. Land er algróið og gróður fremur hávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi en mosaþekja er mikil, fléttur finnast ekki sökum bleytu.
Plöntur
Vistgerðin er fremur fátæk af æðplöntutegundum, mjög fátæk af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mýrastör (Carex nigra) algerlega ríkjandi en túnvingull (Festuca rubra subsp. richardsonii) og gulstör (Carex lyngbyei) finnast í nokkrum mæli. Af mosum er pollalufsa (Drepanocladus aduncus) algengust en meðal annarra tegunda eru tjarnahrókur (Calliergon giganteum), flóahrókur (C. richardsonii), mýrabrandur (Campylium stellatum) og tjarnakrækja (Scorpidium scorpioides).
Jarðvegur
Lífræn jörð er einráð, jarðvegur er mjög þykkur, kolefnisinnihald í meðallagi en sýrustig fremur lágt.
Fuglar
Allríkt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru lóuþræll (Calidris alpina), hrossagaukur (Gallinago gallinago), spói (Numenius phaeopus), stelkur (Tringa totanus), jaðrakan (Limosa limosa) og óðinshani (Phalaropus lobatus). Beitiland álfta (Cygnus cygnus) og gæsa.
Líkar vistgerðir
Gulstararfitjavist og gulstararflóavist.
Útbreiðsla
Finnst í einhverjum mæli á láglendi í öllum landshlutum, þar sem víðáttumikil flæðilönd eru, svo sem með Héraðsvötnum í Skagafirði, Lagarfljóti á Úthéraði, í Flóa og Borgarfirði.
Verndargildi
Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

